Unglingakvöld: Sigga Dögg les upp úr kynVeru

Sigga Dögg kynfræðingur les fyrir unglinga upp úr nýútkominni bók sinni kynVera mánudaginn 5. nóvember kl. 20. KynVera fjallar um líkamann og ástina og fyrstu skref ungs fólks í kynlífi.

 Sigga Dögg hefur unnið við kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins frá árinu 2010 og fann að það var æpandi þörf fyrir meiri umræðu um kynlíf, samskipti, samþykki og ástina frá sjónarhorni unglinga. Í bókinni birtast því raunverulegar samræður og spurningar sem unglingar hafa spurt að í kynfræðslu en einnig hlutir sem höfundur upplifði sjálf sem unglingur.

 „Þegar ég var unglingur voru bara til örfáar bækur sem fjölluðu eitthvað um kynlíf en engin þeirra hafði það að meginviðfangsefni sínu þrátt fyrir að kynlíf, líkaminn og ástin hafi verið næstum því það eina sem ég og vinkonur mínar og vinir pældum í. Þegar ég hef rætt við ungt fólk um þeirra fyrstu kynlífsreynslu, með sjálfum sér og öðrum, greini ég oft ákveðin samhljóm í minni eigin reynslu. Það er von mín að ungt fólk geti speglað sig í bókinni og að hún verði ísbrjótur á samræður, bæði í vina- og ástarsamböndum en einnig við fullorðna fólkið sem virðist oft hafa gleymt því hvernig það er að stíga sín fyrstu skref í kynlífi og ástinni,“segir Sigga Dögg.