Að ala upp lestrarhest


Hér er listi af vef Scholastic um hvernig gott sé að hegða sér við lestur með börnum og hvernig glæða megi áhuga barna fyrir bókum.

  1. Lestu fyrir eða með barninu þínu daglega, í að minnst kosti 15 mínútur, jafnvel þó barnið þitt sé sjálft farið að lesa.
  2. Skapaðu ákveðnar lestrarvenjur. Kúrið saman á þægilegum stað á sama tíma á hverjum degi og lesið kvöldsögur; lesið framhaldsbók við eldhúsborðið; takið alltaf nýjar bækur með í ferðalög.
  3. Talið um bækurnar á meðan þið lesið. Spyrðu barnið opinna spurninga um söguþráðinn og sögupersónur.
  4. Sýndu barninu þínu að þú hafir einnig gaman að lestri. Það eru meiri líkur á því að barnið þitt hafi yndi af lestri ef það sér að þú hefur það.
  5. Umvefðu barnið þitt með orðum – töluðum og skrifuðum – alveg frá fæðingu. Jafnvel hversdagslegar samræður auka orðaforða og styrkja framburð. Það auðveldar ólæsu barni að læra stafi og orð að hafa ritaðan texta fyrir augunum. Njótið tungumálsins til hins ýtrasta: Syngið, lesið rímaðan texta, farið í orðaleiki.
  6. Útvegaðu barninu þínu bókasafnsskírteini og farið reglulega í heimsóknir á bókasafnið.
  7. Hafðu bækur til taks í öllum herbergjum hússins – og í bílnum – svo að hægt sé að grípa í bók og lesa þegar löngunin kviknar.
  8. Kynntu undir ástríðu: Hjálpaðu barninu þínu að finna bækur, blöð og aðrar skráðar upplýsingar um áhugamál þess og tómstundagaman.
  9. Takmarkaðu skjástundirnar (sjónvarp, sjónvarps- og tölvuleiki) svo þær yfirgnæfi ekki lestrarstundirnar.
  10. Skrif styðja lestur og öfugt. Útvegaðu liti, penna, blýanta og pappír og hvettu barnið þitt til að skrifa. Allt kemur að gagni: sendibréf, innkaupalistar, dagbókaskrif, sögur o.fl. 

    (þýtt af www.scholastic.com/familymatters/read/ -  krækja á vef Scholastic, opnast í nyjum glugga)