Útlánareglur

Útlánareglur

 

Skírteini

Bókasafnsskírteini eru afgreidd samkvæmt gjaldskrá. Viðskiptavinur fyllir út eyðublað um aðgang í safnið.Árgjald er skv. gjaldskrá bæjarins hverju sinni. Framvísa ber korti þegar safngögn eru fengin að láni. Nýtt kort fyrir glatað er afgreitt samkvæmt gjaldskrá.

Skírteini Bókasafns Reykjanesbæjar eru gefin út á einstakling og er óheimilt að nota skírteini annarra. Skírteini fyrir eldri borgara, öryrkja gegn framvísun vottorða þar að lútandi, og fyrir börn að 18 ára aldri eru frí fyrir íbúa með lögheimili á Suðurnesjum. Ábyrgð foreldra/forráðamanns þarf fyrir kort barna. Skiptinemar þurfa ábyrgðarmann. Skírteinið gildir einnig í Bókasafni Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga. Handhafar Menningarkorta fá frí skírteini, sjá nánar um Menningarkort Reykjanesbæjar.

 

Lykilorð

Lánþegar velja sér lykilorð með skírteinum sínum. Lykilorðið er notað í sjálfsafgreiðsluvélunum og til að komast á „mínar síður“ á leitir.is. Þar er  hægt að endurnýja safnefni, ef ekki liggur fyrir pöntun á því, skoða útlánasögu og panta efni sem er í útláni.

 

Útlán og skil

Lánstími er mismunandi, safngögn eru að jafnaði lánaðar út í 30 daga og kvikmyndir í 3 daga. Dagsektir reiknast á safngögn ef farið er fram yfir útlánatíma. Dagsektir eru skv. gjaldskrá bæjarins hverju sinni. Hægt er að skila safnefni í lúgu við aðalinnganginn í safnið eftir lokunartíma. Endurnýja má lán á safnefni einu sinni, á safninu, á leitir.is, með tölvupósti eða með símtali á bókasafnið.

 

Skráðu netfangið þitt

Áminning um skiladag er að jafnaði send til þeirra sem eru með netfang sitt skráð. Ítrekunarbréf eru send innan 10 daga frá skiladegi. Vert er þó að benda á að það er alfarið á ábyrgð lánþegans að gögnum sé skilað á réttum tíma. Ef gögnum safnsins er skilað eftir að útlánstími rennur út eru greiddar dagsektir samkvæmt gjaldskrá. Ef safngögnum er ekki skilað er send innheimtuviðvörun þar sem lánþega er gefinn 10 daga frestur áður en vanskil eru send í innheimtu. Ef til vanskila kemur er korti lánþega lokað og krafa send í Motus. Forráðamenn fá innheimtubréf vegna vanskila barna og ungmenna.

 

Allra ábyrgð og hagur

Skilvísi og góð meðferð á safngögnum er grundvöllur góðs bókasafns. Glatist eða skemmist safnefni í vörslu lánþega er það á hans ábyrgð og þarf hann að greiða andvirði þess. Forráðamenn bera ábyrgð á því efni sem börn fá að láni. Bókasafn Reykjanesbæjar ber ekki ábyrgð á skemmdum sem mynd- eða geisladiskar í eigu þess geta hugsanlega haft á afspilunartæki utan safnsins.

 

Persónuverndarreglur Bókasafns Reykjanesbæjar

Útlánasaga lánþega er vistuð inni á Landskerfi Bókasafna - leitir.is þar sem lánþegar geta nálgast upplýsingar um 100 síðustu útlánuðu bækurnar. 

 

Bókasafni Reykjanesbæjar er almenningsbókasafn og öllum opið. Verið velkomin á safnið!