Brot úr áhugaverðum greinum

Hér eru einungis birt stutt brot úr ýmsum áhugaverðum greinum sem eru vel þess virði að vera lesnar í heild sinni.

"Það krefst vissrar áreynslu áreynslu að lesa bækur og það krefst líka vissrar áreynslu að standa upp úr sófanum og gera eitthvað annað en að glápa á imbakassann, sérstaklega þegar vinnudagurinn er langur og sólardagurinn stuttur."
(Úr Lestur góðra bóka - Viðhorf í Morgunblaðinu 19. október 2004 - Svavar Knútur Kristinsson)

"Barn sem elst upp með bóklestri, sem foreldri gefur sér tíma til að skoða með bók og þýða myndirnar yfir í orð og orðin yfir í myndir - binst lestri. Það skilur að á milli tveggja spjalda er veröld sem því stendur til boða. Veröld orðanna. Það er aldrei of snemmt að byrja. Einhver mestu lífsgæði sem foreldri getur fært barni sínu er færni til að lesa."
(Úr Læsi er lífsgæði - Aðsend grein í Fréttablaðinu 19. janúar 2012 - Pétur Gunnarsson. Sjá http://www.visir.is/laesi-er-lifsgaedi/article/2012701199977. Krækja á vef blaðsins, opnast í nýjum glugga)

"Mig langar til að koma upp nýju kerfi eða formi sem myndi gera manni lífið þægilegra. Hvort ekki væri hægt að koma þeim skilaboðum áleiðis að betra sé að gefa bók en bangsa. . . Í stað þess að fylla rúmmetra af drasli myndist sú hefð að gefa nýfæddu barni Vísnabókina, Míó minn í eins árs afmælisgjöf, Ronju í þriggja ára og Grimms-ævintýri í fjögurra og svo auðvitað allt hitt þar til barnið á eilíft og æðislegt heimsbókmenntasafn á aðeins hálfs metra hilluröð..."
(Úr Bangsar vinsamlegast afþakkaðir - Pistill Andra Snæs Magnasonar af vef Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfundar sem ekki er lengur aðgengilegur. Heimasíða samtakanna er http://www.rsi.is/siung. Krækja á vef samtakanna, opnast í nýjum glugga.)

"Bókmenntir þjálfa börn í að einbeita sér. Þær æfa skapandi hugsun og efla siðgæðisvitund þeirra. Þær eru þroskandi reynsla í sjóð lesenda sem þeir geta alltaf sótt í, vegna þess að þær kenna okkur betur en nokkuð annað á manneskjurnar. Hvernig fólk er til í veröldinni? Hvernig hugsar það, finnur til og hagar sér? Hvernig bregst það við þegar á reynir? Hvernig nálgast ég það? Hvernig tókst mér að særa það? Eru einhverjir aðrir eins og ég?..."
(Úr Hvað eiga börn að gera við bækur og bækur að gera við börn? - Yrkja 1991- Silja Aðalsteinsdóttir)

"Ég hef víst ekki lifað marga daga án þess að lesa eitthvað. Lestur er mér jafn eðlileg athöfn og að borða og sofa. Mér er það í barnsminni þegar ég heyrði fullorðna manneskju segja að hún læsi aldrei neitt. Undrun minni voru engin takmörk sett og eru ekki enn. Seinna skildi ég að víst væri líklega hægt að lifa án þess að lesa, en ennþá get ég ekki alveg gert mér grein fyrir hvernig líf það er."
(Úr Bækur sem sátu kyrrar - Skáld um skáld 2003 - Guðrúnu Helgadóttur)

"Möguleikar til að fræðast um heiminn og tengjast fólki um víða veröld eru meiri en nokkru sinni fyrr. En mikilvægust upplýsingarnar eru ekki á Youtube. Sá sem ekki hefur þjálfað sig í lestri hefur takmarkaðan aðgang að heimi vísinda, tækni og heimspeki."

(Úr Strákanir okkar - Aðsend grein í  Fréttablaðinu 25. janúar 2012 - Andri Snær Magnason. Sjá http://www.andrisnaer.is/2012/01/strakarnir-okkar/. Krækja á vef höfundar, opnast í nýjum glugga)

"Eins og allir vita byggist skólanám að miklu á lestri, ritun og munnlegri tjáningu. Þeir sem vilja auka líkurnar á velgengni barna sinna á menntabrautinni síðar meir ættu sem oftast að taka þau á hné sér og lesa, lesa, lesa. Þannig gefa þeir börnunum ekki einungis ómetanlegt veganesti talið í krónum heldur eiga með þeim ánægjustundir sem að öllum líkindum verða dýrmætar perlur í endurminningum þeirra til æviloka."
(Úr Meira en milljón gefins - Aðsend grein í Morgunblaðinu 20. desember 1995 - Ragnheiður Briem. Sjá http://www.mbl.is/greinasafn/grein/240311/. Krækja á vef blaðsins, opnast í nýjum glugga)

"Börn og unglingar eiga að lesa sem mest af þjóðsögum, ævintýrum og goðsögum, því þar er málfarslegur fjársjóður, lifandi ímyndunarafl, boðskapur og skemmtun."
(Úr Einu sinni var... - Börn og menning 1/2000 - Sölvi Sveinsson)

"Nauðsynlegt er að skoða sömu bókina aftur og aftur með barninu, því að ánægja þess er framar öllu fólgin í því að kannast við myndirnar og rifja upp nöfnin, sem það er búið að læra. Umfram allt verður að gefa barninu tíma til þess að nema bókina."
(Úr Viltu segja mér sögu - Heimskringla 1969 - Vilborg Dagbjartsdóttir)

"Barn sem ánetjast bókum á unga aldri, það þarf engan kvíðboga að bera þótt það kasti bókinni frá sér á unglingsárum. Það geta vel komið tímabil þegar lestur er ekki það sem manni dettur fyrst í hug. Sú löngun vitjar lesarans aftur. En ef aðstandendur hafa ekki nautn af bókum og eru ekki stöðugt að umgangast bækur, þá geta þeir varla ætlast til að afkvæmið verði lestrargæðingur, í hæsta lagi stautfær trússhestur."
(Úr Lestur-eilífðarmál - Lestrarbókin okkar 2000 - Pétur Gunnarsson)

"Engir lesendur eru þakklátari en börn. Hugur þeirra er gljúpur og næmur. Aldrei á ævinni verðum við fyrir eins djúpum og langæjum áhrifum frá bókum og í barnæsku, því að þá er innlifunarhæfileikinn mestur."
(Úr Tómstundalestur - Lestrarbókin okkar 2000 - Símon Jóh. Ágústsson)