Bókaval, hvernig velja á bækur

Eftirfarandi greinarkorn er tekið úr tímaritinu Bókasafnið og er eftir Helgu K. Einarsdóttur


"Það getur verið erfitt að ákveða hvaða bækur eru góðar barnabækur. Ég hef tekið saman nokkur atriði um bókaval. Sum eru höfð eftir öðrum en önnur byggð á eigin reynslu.

Góð bók þarf að vera:

Skemmtileg

Eyða fordómum, t.d. kynferðis- og kynþáttafordómum, og vekja til umhugsunar um ranglæti í ýmsum myndum.

Skrifuð á lipru máli og sæmilega stíluð.

Vönduð að frágangi, þ.e. prófarkarlestur, pappír, letur, bókband o.s.frv.

Efla skilning á kjörum annarra, t.d. með því að segja frá börnum/fólki sem lifir við aðrar aðstæður en við, aðra menningu, á öðrum tímum, börnunum í   stríðshrjáðum löndum, vangefnum eða fötluðum börnum, börnum sem deyja, missa ástvini, lenda í skilnaði foreldra eða sjúkrahúsvist, börnum einstæðra foreldra o.s.frv.

Örva hugmyndaflugið, t.d. þjóðsögur og ævintýri, dýrasögur, "fantasi" og "nonsens" bókmenntir.

 Enda vel eða allavega þannig að hún skilji ekki við börnin í algjöru vonleysi.


Góð bók þarf að hafa til að bera fyrsta kostinn og tvo til þrjá aðra. Það skaðar heldur ekki að höfundurinn hafi listræn tök á efninu.

Nokkur aðriði sem hafa má í huga til hliðsjónar við mat á myndefni:
    Samræmi mynda og texta (t.d. háralitur)
    Er mynd á réttum stað í texta?
    Hvaða atriði texta eru dregin fram í mynd? (Hasar, fegurð, tilfinningar)
    Bæta myndir einhverju við texta?
    Eru myndirnar lifandi?
    Hæfa þær sérstaklega einhverjum tíma (t.d. gamla tímanum) eða hughrifum?
    Eru myndirnar listrænar, "fallegar" raunsæja o.s.frv."


(Úr grein Helgu K. Einarsdóttur, bókasafnsfræðings í tímaritinu "Bókasafnið", 16 árg. 1992)