Tvískinnungur

Tviskinnungur

Tvískinnungur

 

Tvískinnungur er myndlistarsýning eftir Ásdísi Friðriksdóttur sem opnaði í Átthagastofu fimmtudaginn 29. júní og stendur fram til 17. ágúst 2017. 

Verkin eru unnin úr áli og olíu og sýna fossa sem eyðilögðust við gerð Kárahnjúkavirkjunar. 

Texti frá Ásdísi um Tvískinnung:

 

Að vera eða vera ekki

Mannshugurinn er margslunginn. Hugurinn reikar, nýjar hugsanir kvikna. Við eigum orð yfir hugsanir, tilfinningar; yfir allt það sem mennskan býður. Tvískinnungur er hugtak sem ég vil skoða í mennskunni. Við búum öll í sama heimi en viljum þó eiga land okkar, vatn okkar og tært loft. Við erum andvíg því að virkja fallvötn, byggja álver í landinu okkar, en viljum eiga bíl eða hjól til að njóta eigna okkar; landsins, loftsins og hins hreina vatns, fljúga til annarra landa, kynnast veröldinni. Aðrir geta framleitt álið í farartækin okkar þótt mengun verði meiri af þeirri orku sem þar býðst og launin þar séu skorin við nögl, bara ef við fáum okkar frelsi. Frelsi eins er þannig annars helsi. Á tyllidögum tölum við þó um jarðarbúa sem eina fjölskyldu sem byggir þessa jörð, við erum bræður og systur, en bara þegar það hentar okkur.

 

Það sem mig langar að draga fram í verkum mínum en samtal án orða milli mín og áhorfandans.

 

Það þarf ekki alltaf að hafa orð til að skilja.

 

Um Ásdísi Friðriksdóttur:

Ásdís Friðriksdóttir fæddist árið 1949 í Reykjavík. Hún sleit barnsskónum í Kópavogi en árið 1973 flutti hún með eiginmanni sínum til Njarðvíkur og hefur búið þar allar götur síðan. Ásdís er lærður tannsmiður og hefur starfað við fagið í rúma fjóra áratugi. Áhugi hennar á myndlist hefur ætíð verið mikill og hefur hún reglulega bætt við sig listnámi frá árinu 2000.

Ásdís hefur tekið þátt í samsýningum og verið með einkasýningar á verkum sínum frá árinu 2008. Sýningin Tvískinnungur var fyrst sett upp í listasal Anarkíu í Kópavogi árið 2016.