60 ára afmælissýning Bókasafns Reykjanesbæjar
Í tilefni 60 ára afmælis Bókasafns Reykjanesbæjar var sett upp sýning um þróun íslenskra bókasafna og sögu Bókasafns Reykjanesbæjar í Átthagastofu.
Bæjar- og héraðsbókasafn Keflavíkur var formlega opnað 7. mars 1958 á efri hæð íþróttahúss barnaskólans og byggir á gömlu lestararfélögunum.
Margs konar munir voru á sýningunni sem sýna þær breytingar sem orðið hafa í bókasafnsheiminum á síðustu 100 árum.
Fyrsti bæjarbókavörður var Hilmar Jónsson og gengdi hann því starfi til ársins 1992. Árið 1974 fékk safnið nýtt húsnæði að Mánagötu 7, þar var safnið til ársins 1993 en þá var það flutt í Kjarna að Hafnargötu 57. Hulda Björk Þorkelsdóttir tók við sem forstöðumaður árið 1992 og lét af störfum í lok árs 2013. Tók þá Stefanía Gunnarsdóttir við starfi forstöðumanns og hefur gegnt því síðan.
Um mitt ár 2013 flutti safnið í núverandi húsnæði í Ráðhús Reykjanesbæjar, húsnæði sem skiptist í tvær hæðir. Það var upphaflega byggt fyrir banka og því þurfti að aðlaga safnið að húsinu. Hugmyndafræðin á bak við flutninginn var að öll kjarnaþjónusta bæjarins væri undir einu þaki. Safnið er í opnu rými þar sem þjónustuver Reykjanesbæjar er á sama stað auk þess sem Ráðhúskaffi er skemmtileg viðbót í húsinu. Á neðri hæð safnins er upplýsingaþjónusta, almenn fræðirit, lessalur og hópavinnuborð. Á aðalhæð safnins er afgreiðsla, barnadeild, tímarit, skáldrit og ævisögur. Gamla peningageymslan er orðin að Átthagastofu sem varðveitir sögulegan fjársjóð um Reykjanesbæ auk sýningarrýmis.
Bókasafnið er menningar, upplýsinga og þekkingasetur bæjarbúa. Í safninu er lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreyttan safnkost til að geta þjónað öllum almenningi, sinnt fræðslu og menningarviðburðum. Bókasöfn nútímans eru oft kallaðir þriðji staðurinn; griðastaður í amstri dagins, þar sem hægt er að njóta, læra, taka þátt og styrkja andann. Staður til þess að hitta fólk, lesa, læra, sækja viðburði og fræðslu á eigin forsendum og frumkvæði. Á síðasta ári (2017) komu tæplega 10.000 manns í skipulagða viðburði í Bókasafninu. Þá er frátalið fólk sem sækir sér bækur, kíkir í tímarit eða kemur til að læra.
Bókasöfn 21. aldar eru að þróast í öflug menntunar- og menningarsetur. Söfnin eru ekki lengur bara fyrir bækur heldur eru þau hlutlausir staðir fyrir samskipti fólks og þekkingaröflun í sinni fjölbreyttustu mynd. Þau eru lifandi menningarstofnanir sem eru að þróast í takt við breyttar þarfir íbúa og bókasöfn eru staðir þar sem hjartað slær í samfélögum