Vefstefna

 

Vefstefna Bókasafns Reykjanesbæjar

 

Samþykkt 30.11.2016 af:

Stefanía Gunnarsóttir, forstöðukona Bókasafns Reykjanesbæjar

Markmið:

Vefstefnu Bókasafns Reykjanesbæjar er ætlað að endurspegla leiðarljós safnsins sem er að veita vandaða bókasafns- og upplýsingaþjónustu. Á vefnum er þjónustan með einföldu, skilvirku og vinalegu vefsvæði. Vefsíðan skapar umgjörð og nýtist að hluta til sem verklagsreglur fyrir ritsjóra vefsins.

 

Framtíðarsýn:

Markmið með vefsíðu Bókasafns Reykjanesbæjar er að bjóða upp á bestu mögulegu upplýsingar hverju sinni og tryggja notendum aðgang að þeim allan sólarhringinn. Birtar eru fréttir af viðburðum, fréttir, tenglar á samfélagsmiðla, bent á upplýsingaleiðir og fleira sem tengist starfi safnsins.

 

Marhópur Bókasafnsins

Starfsemi Bókasafns Reykjanesbæjar fellur undir bókasafnslög nr.150 frá árinu 2012. Þar segir í 1. grein að almenningsbókasöfn séu þekkingaveitur og fræðslustofnanir sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum. Markhópur Bókasafns Reykjanesbæjar eru fyrst og fremst íbúar bæjarfélagsins; börn, unglingar, ungt fólk, fullorðnir, foreldrar, námsmenn og eldri borgarar. Það er kappsmál Bókasafns Reykjanesbæjar að þjóna hverjum og einum eftir bestu getu og hvetja almenning til lesturs.

Börn

  • Á vefnum er að finna efni sem er fyrir börn. Bent er á bækur sem henta ýmsum aldurshópum og bækur flokkaðar eftir nokkrum efnisflokkum. Í fréttum er vakin athygli á öllu menningarstarfi bókasafnsins fyrir börn.

 

Ungmenni

  • Á vefnum er vakin athygli á gömlum og nýjum unglingabókum. Einnig er á sérstakri unglingasíðu ábending um bækur og vefi sem tengjast ákveðnu efni. Sagðar eru fréttir af unglingastarfi á fréttasíðu vefs.

 

Foreldrar

  • Til þess að gera lestur að lífsstíl er farsælast að kynna börnum bækur frá unga aldri. Á vefnum er að finna ábendingar til foreldra um lestur með ungum börnum, bæði í formi fræðslu og bókalista. Foreldrar geta ekki síður nýtt sér þær upplýsingar sem koma fram á sérstökum barna- og unglingasíðum. Öll menningarverkefni fyrir börn og unglinga eru auglýstar á fréttasíðu vefs.

Fullorðnir

  • Reglulega er vakin athygli á áhugaverðum bókum, bæði nýjum og gömlum og lesendum veitt innsýn í það sem aðrir lesa. Einnig eru á vefnum upplýsingar og fróðleikur um Reykjanesskagann undir hlekknum Átthagastofa, gagnabanki um Suðurnes og fleiri upplýsingavefir. Vakin er athygli á viðburðum á fréttasíðu og í sérstakri viðburðarskrá.

 

Námsmenn

  • Á vef bókasafnsins er bent á krækjur sem námsmenn geta notað til að afla sér upplýsinga vegna náms eða námsskeiða. Einnig geta námsmenn nýtt sér þá þjónustu bókasafnsins að senda fyrirspurnir í tölvupósti til upplýsingaþjónustu. 

 

Eldri borgarar

  • Eldri borgarar sem ekki eiga að heiman gegnt geta nýtt sér heimsendingarþjónustu bókasafnsins. Hægt er að hafa samband í gegnum vef og óska eftir bókum. Heimsending er alla miðvikudaga.


Íbúar af erlendum uppruna

  • Á vefnum er að finna upplýsingar um þjónustu bókasafnsins á ensku og verið er að vinna í því að bæta það efni.

Innhald vefjar gagnast ekki síður til upplýsingaöflunar um starfsemi Bókasafns Reykjanesbæjar fyrir áhugafólk og fjölmiðla. Einnig er notendum boðið upp á að koma með ábendingar um innkaup fyrir safnið.

Með því að bjóða notendum vefs að skrá sig á póstlista á það kost á því að fá upplýsingar um áhugaverð gögn og viðburði í tölvupósti. Þannig má ná enn betur til markhópa safnsins.

 

Samfélagsmiðlar

Bókasafn Reykjanesbæjar er með fésbókarsíðu, Instagram reikning, Youtube rás og Pinterest síðu. Á fésbókarsíðu safnsins eru viðburðir kynntir, settar inn myndir og ýmiss fróðleikur sem tengist bókum, höfundum eða starfsemi safnsins. Instagram reikningur safnsins er tengdur við fésbókarsíðuna og er þá hægt að birta myndir og texta sem eru sett á Instagram á fésbókarsíðunni. Á Pinterest síðu safnsins er alls konar hugmyndum safnað saman, af tilvitnunum í bækur, bókahillum, leiksvæðum fyrir börn, hugmyndum fyrir skapandi hópinn okkar o.fl. 

Nánari útlistun reglugerða við samfélagsmiðla má finna í skjali frá Reykjanesbæ; Leiðarvísir um notkun samfélagsmiðla (dagsett 29.05.2017).

Persónuverndarreglur Bókasafns Reykjanesbæjar

Starfsfólk bókasafnsins tekur iðulega myndir á opnum viðburðum á vegum safnsins. Samkvæmt nýjum lögum um persónuvernd er það skilningur safnsins að hópmyndir á opinberum vettvangi séu innan ramma laganna og þurfi ekki upplýst samþykki allra á myndinn til myndbirtingar. Bókasafnið geymir myndirnar í lokuðum myndabanka á vegum Reykjanesbæjar og birtir þær einnig oft á heimsíðu og samfélagsmiðlum bókasafnsins. Mynd sem birtist á heimasíðu Bókasafns Reykjanesbæjar er í eigu bókasafnsins en myndir sem birtar eru á Instagram og Facebook eru í eigu Facebook. 

Ritstjórnarstefna / ábyrgð

Ritstjóri ber ábyrgð á öllu efni á vef. Hann sér um að kalla eftir efni frá greinahöfundum og búa til birtingar. Ritstjóri skal leitast við að vanda málfar og varast óþarfa málalengingar.

 

Tungumál og áreiðanleiki

Íslenska er opinbert mál á vef Bókasafns Reykjanesbæjar og allar upplýsingar á vefsvæðum á að setja fram á hnitmiðaðaðan hátt og vanda skal málfar. Málfar vefsins skal miða við almennan lesanda og forða skal sérhæft málfar og tæknilega, lagalega eða stjórnsýslulega orðanotkun eins og kostur er. Ensk útgáfa skal vera til staðar fyrir mikilvægustu starfsemina og auðvelt að sjá hvaða texti er til á öðru tungumáli en íslensku. Önnur tungumál skulu notuð sé notkun þeirra til þess ætluð að ná til ákveðinna markhópa. Samræmi skal vera í öllum upplýsingum á vef safnsins. Upplýsingar um sama efni mega ekki stangast á og tengja skal á milli síðna frekar en að margskrá sömu upplýsingarnar. Ábyrgðarmenn efnis skulu gæta þess að uppfæra upplýsingar ef þær eiga heima á fleiri en einum stað á vefnum. Stöðugt verður að huga að gæðastarfi til að efla og bæta vefinn og gagnsemi hans fyrir notendur.

 

Uppfærsla vefs

  • Nýjar fréttir skal skrifa í hverri viku og fréttir af viðburðum í safninu.
  • Vef þarf að endurskoða í upphafi hvers árs með tilliti til nýrrar fjárhagsáætlunar og gjaldskrár.
  • Yfirfara þarf efni og tengla eftir þörfum, taka út það sem úrelt er og setja inn nýjar upplýsingar. Passa þarf að allir tenglar á vef séu virkir.

Skipulags vefs og útlit

Vefurinn var unnin af fyritækinu Stefnu og var tekinn í gagnið í lok desember árið 2015. Vefurinn er unninn í vefumsjónarkerfinu Moya. Slóðin er http://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/forsida

 

Vefstefnan er unnin af ritsjóra vefsíðu Bókasafns Reykjanesbæjar, Önnu Margréti Ólafsdóttur í samstarfi við forstöðukonu safnsins Stefaníu Gunnarsdóttur.

 

Ábyrgð: Bókasafn Reykjanesbæjar,

bokasafn@reykjanesbaer.is

 

Uppfært 30.12.2020