Afmælissýning Tjarnarsels
Afmælissýning Tjarnarsels var opnuð í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar 13. desember og stóð hún til 18. mars 2019. Sýningin var sett upp í tilefni 50 ára afmælis elsta leikskóla bæjarins.
Saga Tjarnarsels og leikskóla á Íslandi var sett fram á skemmtilegan hátt og upprunalegir munir voru til sýnis. Sýningin var gagnvirk sem þýðir að börnum var frjálst að leika sér með efniviðinn.
Verkefnið var samstarfsverkefni Tjarnarsels og Bókasafns Reykjanesbæjar og var hugmyndin upphaflega komin frá Ingu Maríu Árnadóttur verkefnastjóra hjá Tjarnarseli og fyrrum leikskólastjóra. Á 20 ára leikskólastjóraferli fannst henni alltaf mikilvægt að varðveita leikföng, húsgögn og aðra muni sem leikskólinn var hættur að nota og hýsir Byggðasafn Reykjanesbæjar þá alla í dag.
Sýningin naut mikilla vinsælda meðal ungra barna og foreldra þeirra sem heimsóttu bókasafnið.