Vilt þú búa til bókaorm?

Eftirfarandi grein eftir Svanhildi Eiríksdóttur bókmenntafræðing og  fyrrverandi deildarstjóra á Bókasafni Reykjanesbæjar birtist í Víkurfréttum við upphaf Lestrarmenningar í Reykjanesbæjar 2003.


"Bókalestur er yndislegur, hættulaus og tiltölulega ódýr leið til að efla andann, fá útrás fyrir tilfinningar og stytta sér stundir. Lestur veitir ánægju, huggun, uppörvun, skilning, útrás og stundum hugljómun . . ." (1)

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. desember 1995 segir Ragnheiður Briem, íslenskukennari frá kynnum sínum af aðferðum í móðurmálskennslu í Bandaríkjunum, þegar hún dvaldi þar í landi sem gestafræðimaður við Harvardháskóla. Frá því að ég tók til starfa á Bókasafni Reykjanesbæjar á haustmánuðum 1996 hef ég oft og tíðum vitnað í þessa grein þar sem margt athyglisvert kemur þar fram. Ragnheiður segir m.a. að "ef lesið er fyrir börn á hverju kvöldi frá því að þau eru nógu gömul til að skoða myndir þar til skólaaldri er náð jafnast það á við að minnsta kosti þúsund kennslustundir í móðurmáli. Barn, sem farið hefur á mis við þessa reynslu, þarf því að fá þúsund aukatíma til að standa jafnfætis "bókvönum" bekkjarsystkinum." (2) Sé þetta satt er mikið í húfi.

Lesgleði er smitandi
Það er að ýmsu að hyggja þegar vekja á lestrarlöngun hjá börnum. Mestu máli skiptir að uppalandinn hafi áhuga á bókum. Börn taka t.a.m. eftir því hvernig bækur eru handfjatlaðar og að sjálfsögðu að bækur séu yfir höfuð handfjatlaðar. Sá sem les verður að þykja bókin skemmtileg, börnin finna strax ef lesgleðina vantar og mín reynsla er sú að lesgleði sé smitandi. Það er líka gott að vera búin(n) að kynna sér efni bókarinnar áður en lestrarstundin hefst, sé kostur á því. Á þann hátt verður lesturinn áreynslulausari og hægt er að undirbúa umræður um efni bókarinnar. Börn eru forvitin og vilja vita ýmislegt um það sem fram kemur í sögum og þá er gagnlegt fyrir lesandann að vera búinn að hugleiða innihaldið. Með þessum hætti er líka hægt að nota bækur til að hjálpa börnum til að vinna sig úr erfiðri lífsreynslu, s.s. að byrja í leikskóla/skóla, missa náinn ættingja, fara á sjúkrahús, eignast systkini o.s.frv. Margar bækur eru skrifaðar með þetta í huga.

Hvernig á að velja bók?
Börn eru ógagnrýnir neytendur og því er mikilvægt að velja góðar og gagnlegar bækur fyrir þau. Helga Einarsdóttir, bókasafnsfræðingur hefur sett saman lista um einkenni góðra barnabóka og nefndir að góð barnabók þurfi að bera fyrsta kostinn og tvo til þrjá aðra: 

1. Vera skemmtileg
2. Eyða fordómum, t.d. kynferðis- og kynþáttafordómum, og vekja til umhugsunar um ranglæti í ýmsum myndum.
3. Skrifuð á lipru máli og sæmilega stíluð.
4. Vönduð að frágangi, þ.e. prófarkarlestur, pappír, letur, bókband o.s.frv.
5. Efla skilning á kjörum annarra, t.d. með því að segja frá börnum/fólki sem lifir við aðrar aðstæður en við, aðra menningu, á öðrum tímum, börnunum í stríðshrjáðum löndum, vangefnum eða fötluðum börnum, börnum sem deyja, missa ástvini, lenda í skilnaði foreldra eða sjúkrahúsvist, börnum einstæðra foreldra o.s.frv.
6. Örva hugmyndaflugið, t.d. þjóðsögur og ævintýri, dýrasögur, "fantasi" og "nonsens" bókmenntir.
7. Enda vel eða allavega þannig að hún skilji ekki við börnin í algjöru vonleysi. (3)

Þegar barnið velur sjálft þær bækur sem því langar til að hlusta á kemur að sjálfsögðu fyrir að það veljið bækur sem hvorki hæfir aldri þess né þroska. Þá er um að gera að gera ekki lítið úr vali barnsins, aðalatriðið er að barnið sé fullt áhuga og forvitni. Hlutverk uppalanda er hins vegar að hafa óbein áhrif á valið og bjóðast til að velja með barninu.

Viltu búa til bókaorm?
Ég hóf greinina á tilvitnun um þá ánægju sem bókalestur getur veitt fólki. Í sömu grein er að finna uppskrift af bókormi og ég ætla að ljúka greininni á því að deila henni með ykkur. Uppskriftin hljóðar svona:

1. Að lesa fyrir barnið strax frá fæðingu (15 mínútur á dag nægja).
2. Að hafa bækur til taks fyrir barnið til að handfjatla og jafnvel bíta í. Pantið bækur fyrir barnið í afmælis- og jólagjafir. Fáið ykkur bókasafnskort.
3. Að sýna gott fordæmi. Barn sem venst því frá fæðingu að sjá fjölskylduna lesa bækur er líklegra til að gera slíkt hið sama.

Gangi ykkur vel!

Svanhildur Eiríksdóttir

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum í mars 2003, í tilefni af upphafi verkefnisins Lestrarmenning í Reykjanesbæ. 

Heimildir:
1. Guðlaug Richter, Búum til bókaorma, Börn og menning, 2. tölublað 2002.
2. Ragnheiður Briem, Meira en milljón gefins!, Morgunblaðið 20. desember 1995.
3. Helga Einarsdóttir, Bókval, Bókasafnið 16. árgangur 1992.