Foreldramorgun: Fyrstu 1000 dagarnir

Fyrsti foreldramorgun vetrarins verður fimmtudaginn 6. september kl. 11. Stefanía B. Arnardóttir fjallar um 1000 fyrstu dagana í lífi barns og tengslamyndun foreldra og barna á mikilvægasta mótunarskeiði barns. 

Stefanía mun ræða um efni bókarinnar Fyrstu 1000 dagarnir: Barn verður til þar sem gefin eru góð ráð um hvernig foreldrar geta búið sig undir fæðingu barns og annast það og örvað fyrstu árin með það að leiðarljósi að byggja upp heilbrigðan og ástríkan einstakling. Rannsóknir sýna að fyrstu þúsund dagarnir í lífi barns – frá getnaði til tveggja ára aldurs – hafa afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði þess. Ástrík og næm samskipti á þessum tíma leggja mikilvægan grunn að þroska barnsins sem vitsmuna-, tilfinninga- og félagsveru. Þess vegna þarf það nærgætna umönnun frá fólki sem þykir vænt um það, skilur þarfir þess og hefur þær í fyrirrúmi.

Stefanía B. Arnardóttir er sérfræðingur í fjölskylduhjúkrun og einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna ásamt Sæunni Kjartansdóttur, höfundi bókarinnar 1000 fyrstu dagarnir. 

Foreldramorgnar eru alla fimmtudaga kl. 11 í Bókasafni Reykjanesbæjar. Boðið er upp á fræðsluerindi annan hvern fimmtudag en hinn fimmtudaginn geta foreldrar mætt með börnin sín og spjallað, drukkið kaffi og gluggað í bækur. Öll fræðsluerindin tengjast barnauppeldi og foreldrahlutverkinu á mismunandi hátt og leitast er eftir að hafa erindin fjölbreytt og endurspegla samfélagsumræðu dagsins í dag um uppeldi barna.

Bókasafn Reykjanesbæjar býður upp á notalegt umhverfi fyrir foreldra og börn. Í barnahorninu eru dýnur, leikföng, góð skiptiaðstaða er á salerni og gott aðgengi fyrir barnavagna, bæði inni í safninu og fyrir utan.

Hlökkum til að sjá ykkur í vetur!