Erlingskvöld

Erlingskvöld

 

 

Erlingskvöld verður fimmtudagskvöldið 22. mars og hefst dagskráin klukkan 20.00 í Bókasafni Reykjanesbæjar. Boðið verður upp á kaffi og konfekt og eru allir hjartanlega velkomnir. Húsið opnar klukkan 19.45. 

 

Erlingskvöld er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

 

Feðginin Jana og Guðmundur syngja nokkur frumsamin lög í upphafi kvöldsins.

Að þessu sinni koma þrír rithöfundar og lesa fyrir gesti úr verkum sínum. Bubbi Morthens kemur og les úr ljóðabókum sínum; Hreistur og Öskraðu gat á myrkrið.

Kristín Helga Gunnarsdóttir les úr nýjustu bók sinni Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels en Kristín Helga hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bókina og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Kristín Steinsdóttir les úr nýjustu bók sinni Ekki vera sár sem kom út fyrir jólin 2017. Kristín hefur skrifað á fjórða tug bóka og hafa skáldsögur hennar hlotið mikið lof hér heima og erlendis.

 

 

Hreistur eftir Bubba Morthens er áhrifamikill ljóðabálkur um það umhverfi sem mótaði listamanninn Bubba – sjávarþorpin, verbúðirnar, fiskinn, kuldann, hörkuna. Í leitinni að upprunanum, því sem mótaði þann Bubba sem allir þekkja, lítur hann til þess tíma þegar hann fór þorp úr þorpi, verbúð úr verbúð, frystihús úr frystihúsi og stritaði, djammaði, stritaði meira. Engin miskunn, þúsund þorskar og þúsund farandverkamenn og konur sem þokuðust nær og nær … hyldýpinu?

Hreistur er hörkubók í margvíslegum skilningi: pólitísk, meitluð, sláandi, og Bubbi birtist okkur enn einu sinni sem ótrúlega fjölhæfur, skarpskyggn og heillandi listamaður.

Öskraðu gat á myrkrið – 33 óbundin ljóð, meitluð og kröftug, þar sem dregnar eru upp sláandi myndir af hörðum heimi; svörtum martraðarheimi vímu og ótta, og öskrinu sem óhjákvæmilega brýst út og klýfur myrkrið.

 

Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels. Eitt sinn bjó Ishmael í borg þar sem var líf og fjör alla daga og börn léku sér innan um dulúðuga hnífasala, villiketti og sápugerðarmeistara. Núna er hann fjórtán ára og borgin hans er vígvöllur. Þegar heimilið er rústir einar neyðist hann til að leggja land undir fót og leita skjóls þar sem friður ríkir. En flóttaleiðin er lífshættuleg. Á sama tíma glímir fjölskylda í Kópavogi við það flókna verkefni að fóta sig í nýju landi.

Kristín Helga Gunnarsdóttir er margverðlaunaður rithöfundur en starfaði áður sem fréttamaður. Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels er skáldsaga fyrir unglinga og annað fólk sem byggð er á viðtölum, fréttum og heimildum um borgarastyrjöldina í Sýrlandi, afdrif fólks og örlög.

 

Ekki vera sár.

Allt sitt líf hefur Imba verið á þönum en nú er hún komin á eftirlaun, frí og frjáls. Börnin eru flogin, skyldurnar að baki og nýtt æviskeið fram undan. Loksins gefst tími til að láta draumana rætast. En eiginmaðurinn á líka sína drauma, kannski ekki þá sömu og hún . . .

Ekki vera sár er uppgjör konu á krossgötum. Með eftirsjá hugsar hún um árin sem liðu hjá og tækifærin sem hún greip ekki – en skyldi hún vera reiðubúin að standa á sínu núna? Getur hugsast að ný tækifæri bíði handan við hornið?

Kristín Steinsdóttir er margrómuð og verðlaunuð sagnakona og hefur skrifað á fjórða tug bóka. Skáldsögur hennar hafa hlotið mikið lof heima og erlendis.

 

Feðginin Jana og Guðmundur hafa spilað saman frá því Jana var unglingur. Héldu þau m.a. afmælistónleika í Hljómahöll í haust ásamt hljómsveit þar sem þau fluttu allt frumsamið efni eftir Guðmund Hreinsson. Jana gaf út sína fyrstu breiðskífu í nóvember sl. sem heitir FLORA (sem má finna á Spotify, Itunes & fleiri stöðum á netinu) og mun hún fylgja þeirri plötu eftir með útgáfutónleikum í byrjun apríl nk.