Ljóðalestur og söngur í tilefni Dags íslenskrar tungu

Í tilefni Dags íslenskrar tungu, 16. nóvember, verður boðið upp á ljóðalestur og söng í Miðju safnsins kl. 17.00.

Gunnhildur Þóðardóttir ljóðskáld með meiru flytur ljóð úr nýrri bók sinni Dóttir drápunnar - ljóð úr djúpinu. Ljóðin eru hugleiðingar allt árið um kring um viðburði, persónur og náttúruna. Þetta eru rómantískar lýsingar á landslagi, manneskjunni, menningu og hlutum en einnig kemur við sögu femínsmi, loftslagsumræða og jafnrétti. Dóttir drápunnar er sjötta ljóðabók Gunnhildar Þórðardóttur sem er kennari og myndlistarmaður.

Dr. Guðmundur Brynjólfsson les úr ljóðabók sinni Hrópað úr tímaþvottavélinni. Í dag eru teknar milljónir mynda. Þær eru helst aldrei skoðaðar. Enda ekki teknar til þess. Heldur til að drepa tímann. Festa tímann. Frysta tímann. Ef tíminn er þá til. Hvergi fremur en í þessari angursáru bók ljóða og athugasemda gefur að líta skorinorðari greiningu á stöðu nútímamannsins – þess manns sem virðist úreltur fyrir aldur fram. Guðmundur er djákni, bókmenntafræðingur og leikhúsfræðingur.

Söngflokkurinn Uppsigling flytur nokkur íslensk sönglög.

 

Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

 

Dagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember ár hvert. Markmið dags íslenskrar tungu er að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og gleðjast og fagna sögu hennar, samtíð og framtíð.