Vel heppnuð Safnahelgi afstaðin
Söguganga með tónlistar - ívafi
Safnahelgi á Suðurnesjum fór fram síðastliðna helgi og voru viðburðir og söfn afar vel sótt.
Í Bókasafni Reykjanesbæjar var boðið upp á sögugöngu með tónlistar-ívafi. Rannveig Lilja Garðarsdóttir leiðsögumaður og starfsmaður Bókasafnsins fór með hópi fólks í skemmtilega göngu á laugardeginum. Skipulagði hún göngu frá Bókasafninu að Rokksafni Íslands.
Á leiðinni hitti hópurinn Magga Kjartans í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju og næsta stopp var á æskuheimili Rúnna Júll. Þar fengu göngugarpar að skyggnast inn í herbergi Rúnna sem er ósnert frá unglingsárum hans.
Þá gekk hópurinn að Geimsteini, fyrrum heimili og hljóðveri Rúnna, en þar býr Júlli sonur hans í dag. Hann tók á móti hópnum og tók m.a. lag á gítar frá pabba sínum.
Næst var haldið í Krossmóa þar sem Krossinn stóð áður en þar hitti Vignir Bergmann hópinn. Endað var í Rokksafni Íslands þar sem gestir skoðuðu sýningu Björgvins Halldórssonar - Þó líði ár og öld.
Í tilefni helgarinnar var ljóðum dreift víðs vegar um Reykjanesbæ sem vonandi hafa glatt einhverja bæjarbúa og gesti Safnahelgar.
Rannveig spjallar við hópinn fyrir brottför
Magnús Kjartansson ræðir við hópinn í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju
Fyrir utan æskuheimili Rúnars Júlíussonar
Veggjalist eftir Rúnar Júlíusson
Meiri veggjalist eftir Rúnna Júll
Júlíus Guðmundsson sonur Rúnars
Vignir Bergmann slær á létta strengi
Hópurinn við minningarstein Krossins
Rannveig Lilja segir frá af miklum eldmóð eins og henni einni er lagið