„The Alchemist eftir Paulo Coelho fær mann til þess að hugsa aðeins um það hvort maður sé á réttri leið í lífinu.“
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar Elva Dögg Sigurðardóttir háskólanemi í tómstunda- og félagsmálafræði en hún starfar einnig í Fjörheimum, hjá KVAN og þjálfari í Metabolic. Elva spændi upp allt skólabókasafnið í Holtaskóla á sínum yngri árum en undanfarin ár hefur yndislesturinn oft vikið fyrir skólabókunum í háskólanum.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er mjög dugleg að byrja á nýrri bók áður en ég klára þá sem ég er að lesa. Núna er ég með þrjár bækur á náttborðinu; El Zahir eftir Paulo Coelho, The Life-Changing Magic of Not Giving a F**k eftir Sarah Knight og síðast en ekki síst er það Dimma eftir Ragnar Jónasson.
Hver er uppáhalds bókin?
Ég get ekki nefnt aðra en barnabókina Loforðið eftir Hrund Þórsdóttur. Þessi bók fangaði mig alveg sem barn.
Hver er uppáhalds höfundurinn?
Ég hef lesið mest eftir Yrsu Sigurðardóttur svo ég held hún verði að eiga þann titil en undanfarið hef ég líka verið að lesa bækur eftir Paulo Coelho og hefur hann fengið mig til þess að velta vöngum yfir ýmsum hlutum í lífinu.
Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Ég les helst glæpasögur og einstaka sálfræðitrylli.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Ofangreind barnabók – Loforðið. Þetta er hugljúf og í senn mjög sorgleg saga sem hafði mikil áhrif á 12 ára mig og þó þetta sé barnabók hef ég lesið hana margoft eftir það. Hvet alla krakka til þess að lesa hana!
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Mér finnst að allir ættu að lesa The Alchemist eftir Paulo Coelho, hún fær mann til þess að hugsa aðeins um það hvort maður sé á réttri leið í lífinu.
Hvar finnst þér best að lesa?
Ég gæti alveg vanist því að lesa oftar á ströndinni, annars þykir mér best að lesa uppi í sumarbústað.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Fyrir þá sem hafa ekki lesið The Secret eftir Rhonda Byrne mæli ég klárlega með henni. Síðan langar mig að mæla með einni eftir Albert Espinosa, hún heitir á spænsku Todo lo que podríamos haber sido tú y yo si no fuéramos tú y yo. Enska þýðingin væri þá Everything You and I Could Have Been If We Weren't You and I - Góður sálfræðitryllir sem ég mælli með!
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Ég held ég tæki bókina Abre los ojos eftir Raquel Solé Coronado en hún er búin að vera lengi á listanum hjá mér, örugglega fínt að lesa hana aftur og aftur.
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12