,,Þarna er konan sem er alltaf að lesa í bókasafninu"
Notaleg sögustund eins árs 29. október
Notaleg sögustund með Höllu Karen hefur nú verið fastur liður í Bókasafni Reykjanesbæjar í eitt ár.
Halla Karen Guðjónsdóttir hefur verið í Leikfélagi Keflavíkur í ein 10 ár og kom fyrst fram í bókasafninu sem Eva appelsína, persóna úr Ávaxtakörfunni sívinsælu. Í kjölfar þeirrar heimsóknar bar Halla Karen það undir Stefaníu Gunnarsdóttur, forstöðukonu safnsins, að það gæti verið sniðugt að hafa sögustundir fyrir börn í safninu sem þau gætu tekið þátt í. Úr varð Notaleg sögustund sem hefur slegið rækilega í gegn hjá börnum og foreldrum.
Halla Karen les helst ævintýri með lögum og fyrir valinu verða gjarnan ævintýri sem hafa verið sett upp sem leikrit. Börnin syngja með henni og fá tækifæri til að hrjóta fyrir ævintýrapersónur, hrópa og svara spurningum Höllu. Hún segir ímyndunarafl þeirra fara á flug í hverri sögu og upphaflega hafi hún ætlað að vera með hárkollur, hatta og aðra leikmuni.
,,Það var alveg óþarfi, ég þurfti ekki neina leikmuni. Ímyndunaraflið hjá þeim nær miklu lengra en nokkurn tíman okkar ímyndunarafl. Það var alveg nóg fyrir þau að sjá mig sitja þarna og tala sem einhver refur. Þá er ég bara refur."
Halla Karen segir einmitt að hún komi fram sem hún sjálf í sögustundum og börnin séu farin að þekkja hana. Þegar hún fer t.d. í búðina sjái hún stundum kunnugleg andlit sem hvísla að foreldrum: ,,þarna er konan sem er alltaf að lesa í bókasafninu".
Halla Karen hefur nú á þessu eina ári lesið fyrir um 1000 börn en sögustundirnar hafa verið mjög vinsælar. ,,Það eru alltaf eitthvað af nýju fólki en líka rosalega mikið það sama. Það er alveg fastur kjarni sem kemur alltaf."
Næsta Notalega sögustund verður laugardaginn 26. nóvember klukkan 11.30. Öll börn, foreldrar, ömmur, afar, frænkur og frændur eru hjartanlega velkomin.
Halla Karen sýnir börnunum aðalsöguhetju dagsins - Línu langsokk
Allir fylgjast spenntir með gangi sögunnar