,,Það verða allir betri manneskjur af því að lesa bókina Góði dátinn Svejk”

Eysteinn Eyjólfsson byrjaði mjög ungur að lesa og hefur alltaf verið öflugur lesandi. Um ellefu ára aldurinn var hann farinn að taka níu bækur á tveggja daga fresti að láni hjá Bókasafninu. Hann flutti sig yfir í fullorðins deildina um 12 ára aldurinn en þá var hann búinn að lesa allar bækurnar í barnadeildinni.

Eysteinn hefur gjarnan þann háttinn á að lesa margar bækur í einu. Núna les hann skáldsögu um Víetnam sem heitir The story of war eftir Bao Ninh ásamt því að glugga í Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hašek. Einnig er hann með Marvel teiknimyndablöð við hendina ásamt ferðahandbókum um Róm, Puglía og Krít en þá staði heimsækir hann í sumar.

Eysteinn á þrjár eftirlætis bækur en þær les hann aftur og aftur. Það eru bækurnar Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Márquez, Meistarinn og margarita eftir Mikhail Bulgakov og Góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hašek. ,,Þetta eru allt saman skáldsögur og tvær þeirra eiga það sameiginlegt að fjalla um töfraraunsæi. Það er líka mikill humor í Meistaranum og margaritu og Góða dátanum Svejk, en þær eru líka ádeilubækur”.

Gabriel Garcia Márquez er eftirlætis höfundur Eysteins en hann hefur lesið flestar bækur eftir hann. ,,Hundrað ára einsemd var fyrsta bókin sem ég las eftir hann en síðan hef ég lesið fleiri verk eftir hann. Bókin finnst mér mjög heillandi en hún fjallar um sögu Buendía ættarinnar og er eins og spegill inn í Suður-Ameríku á ákveðnum tíma.”

Núna les Eysteinn einna helst bækur tengdar sögulegu efni, bæði sögulegar skáldsögur og sagnfræðirit. Einnig fylgist hann vel með því sem fram fer í heimsmálum og les bækur sem tengjast því. ,,Ég les líka alltaf mikið af teiknimyndasögum” bætir Eysteinn við kíminn.

Sú bók sem hefur haft mest áhrif á Eystein er bókin Ég lifi eftir Martin Gray. Bókin segir frá manni sem lendir ungur í nasistabúðum og lifir það af en lendir síðar í því að missa hluta fjölskyldu sinnar í skógareldi. ,,Ég las þessa bók tiltölulega ungur og ég man eftir því að hún var mjög áhrifarík. Á svipuðum tíma las ég líka Dagbók Önnu Frank sem hafði líka mikil áhrif á mig.”

Eysteinn er ekki í vafa um hvaða bók allir ættu að lesa; ,,Það verða allir betri manneskjur af því að lesa bókina Góði dátinn Svejk.”

Eysteinn getur lesið nánast alls staðar og sem barn las hann mikið í baði og við matarborðið, sem hann segir að hafi ekki vakið neina sérstaka lukku. Allra best þykir honum að lesa upp í rúmi á kvöldin og segist ekki geta sofnað án þess að lesa nokkrar blaðsíður.

Á eyðieyju tæki Eysteinn með sér öll bindi alfræðirits Brittanicu, enda þarf fólk á eyðieyjum líka að sofa!

Í sumar ætlar Eysteinn meðal annars að ferðast til Ítalíu og Krítar. ,,Mér finnst gaman að koma inn í bókasöfn þegar ég ferðast. Ég fer alltaf í bókabúðir í öllum borgum sem ég ferðast til og mér finnst gott að kaupa mér bækur um svæðið þar sem ég er.”