„Stundum þarf maður bara á klisjukenndum sjálfshjálparbókum að halda.“

Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Katla Hlöðversdóttir flugfreyja hjá Icelandair. Katla les mismikið, stundum margar bækur á vikur en svo líða nokkrar vikur án þess að hún lítur í bók. Hún hlustar hins vegar daglega á hljóðbækur og hlaðvörp.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa tvær bækur. You are a badass. How to stop doubting your greatness and start living an awesome life eftir Jen Sincero. Ansi klisjukennd sjálfshjálparbók en stundum er það bara einmitt það sem maður þarf á að halda. Og Nóttin sem öllu breytti: Snjóflóðið á Flateyri. Vel skrifuð bók en svo ótrúlega átakanleg að ég get aðeins lesið nokkrar blaðsíður í einu.

Hver er uppáhalds bókin?

Það er ekki auðvelt að velja eina uppáhalds bók en bókin Góðir Íslendingar eftir Huldar Breiðfjörð er í miklu uppáhaldi. Svo verð ég líka að nefna uppáhalds hljóðbókina mína  Ég hef nú sjaldan verið algild, ævisaga Önnu á Hesteyri.

Hver er uppáhalds höfundurinn?

Ég á erfitt með að gera upp á milli Mikaels Torfasonar og Jóns Kalmans Stefánssonar. Mér finnst ritstíllinn hans Mikaels í tveimur nýjustu bókunum hans, Syndafallið og Týnd í Paradís áhugaverður. Höfundur er svo hispurslaus og einlægur í frásögn sinni en á sama tíma er textinn hlaðinn húmor og ég skellti oft upp úr við lesturinn. Það kemst að mínu mati enginn höfundur með tærnar þar sem Jón Kalman Stefánsson hefur hælana í textasmíð. Suma kaflana í bókum hans hef ég lesið ég aftur og aftur til þess eins að njóta textans. Ég er oft nærri því búin að strika yfir bestu setningarnar með áherslupenna en þá man ég að það má ekki krota í bókasafnsbækur.

 Hvaða tegundir bóka lestu helst?

Skáldsögur og skólabækur hafa hingað til verið í meirihluta. En svo hef ég líka gaman af því að lesa ævisögur og sjálfshjálparbækur öðru hvoru.

 Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?

The Gifts of Imperfection eftir Brené Brown.

 Hvaða bók ættu allir að lesa?

Ég hafði mjög gaman af bókinni Sapiens: A Brief History of Humankind eftir Yuval Noah Harari. Í bókinni er mannkynssagan sögð á heimspekilegan hátt. Auðlesin bók en skilur samt lesandann eftir með áhugaverðar pælingar um lífið og tilveruna.

 Hvar finnst þér best að lesa?

Uppi í sumarbústað í rigningu eða á sólbekk í sólarlöndum.

 Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?

Þríleikurinn eftir Jón Kalmann Stefánsson: Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins.

 Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?

Boat Building for dummies..

Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.