Líður að jólum

Líður að jólum

 

Í Bókasafni Reykjanesbæjar ætti ekki að fara fram hjá nokkrum að senn líður að jólum. Hillurnar fyllast af nýjum bókum, bókapantanir hafa sjaldan verið fleiri og dagskráin í safninu er býsna jólaleg.

Föstudaginn 24. nóvember klukkan 16.30 verður Bókabíó í safninu. Að þessu sinni kynnum við til sögunnar rithöfundinn Dr. Seuss og ævintýrið um það Þegar Trölli stal jólunum. Jim Carrey fer með aðalhlutverkið í kvikmyndinni sem er frá árinu 2000. Frábært tækifæri fyrir fjölskylduna að koma saman og komast í smá jólastemningu. Tilboð í Ráðhúskaffi. 

Laugardaginn 25. nóvember klukkan 11.30 verður Notaleg sögustund með Höllu Karen. Hún ætlar að lesa og syngja af sinni alkunnu snilld  úr bókinnni Grýla eftir Gunnar Helgason. Tilboð fyrir börn í Ráðhúskaffi.

Fimmtudaginn 30. nóvember klukkan 11.00  kemur Margrét Pála Ólafsdóttir í Foreldramorgunn og spjallar við foreldra um jólahald og hvernig við getum notið hátíðarinnar sem best með börnunum okkar. Afsláttur í Ráðhúskaffi fyrir gesti.

Að kvöldi sama dags verður hið árlega Bókakonfekt Bókasafnsins klukkan 20.00. Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar kemur fram í upphafi kvöld og syngur nokkur hugljúf lög fyrir gesti. Þá koma rithöfundarnir Hallgrímur Helgason, Jón Kalman Stefánsson og hjónin Jón Gnarr og Jóga Gnarr og lesa úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og konfekt.

Föstudaginn 1. desember klukkan 17.00 verður Bókakonfekt barnanna en þá koma rithöfundarnir Gunnar Helgason og Kristín Ragna Gunnarsdóttir og lesa úr nýútkomnum bókum sínum. Barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar kemur einnig fram í upphafi dagskrár. Boðið verður upp á kakó og piparkökur. 

Laugardaginn 2. desember klukkan 15.30 verður Fjölmenningardagur í safninu. Á dagskrá eru atriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, erindi um fjölmenningu og íþróttir og boðið verður upp á portúgalska smárétti. Klukkan 17.00, að lokinni dagskrá, verður kveikt á jólatré bæjarins.

Laugardaginn 9. desember klukkan 13.00 verður jólaföndur í Bókasafni Reykjanesbæjar. Þá bjóðum við öllum áhugasömum að föndra með perlur og pappír með okkur í safninu. Allt efni verður á staðnum og tilboð í Ráðhúskaffi.

Dagskrá í PDF.

jóladagskrá17