Ríflega 250 gestir á fjórum dögum

 

 Ríflega 250 gestir komu á skipulagða viðburði í Bókasafni Reykjanesbæjar á einungis fjórum dögum nú undir lok mars mánaðar. Mikið hefur verið um að vera í Bókasafninu í tilefni 60 ára afmælis safnsins og margir gestir komið í heimsókn. Ætla má að heildarfjöldi gesta á viðburði verði ríflega 1500 einungis í mars mánuði. Taka skal fram að þá eru ekki taldir með gestir sem koma dags daglega að fá lánaðar bækur, læra, lesa blöðin og fleira.

 

Á fimmtudagskvöldið, 22. mars, var hið árlega Erlingskvöld þar sem rithöfundarnir Kristín Helga Gunnarsdóttir og Kristín Steinsdóttir lásu fyrir gesti. Bubbi Morthens ætlaði að koma og lesa úr ljóðabókum sínum en þurfti frá að hverfa vegna flensu. Hann mun koma von bráðar til okkar. Þá komu feðginin Guðmundur og Jana og fluttu frumsamið efni eftir Guðmund fyrir gesti.

erlings

Rithöfundarnir og nöfnurnar Kristín Helga og Kristín Steins.

Á föstudeginum var boðið upp á hið mánaðarlega Bókabíó og að þessu sinni var kvikmyndin Dagbók Kidda klaufa sýnd. Kvikmyndin er sú fyrsta af fjórum sem hefur verið gerð og eru þær allar eftir samnefndum bókum eftir rithöfundinn Jeff Kinney. Bækurnar hafa notið mikilla vinsælda í safninu og kvikmyndirnar ekki síður.

m8

Horft var á kvikmyndina Dagbók Kidda klaufa í Bókabíói

Laugardagurinn byrjaði vel en þá kom Halla Karen og las og söng um ævintýri bræðranna Karíusar og Baktusar í Notalegri sögustund sem er síðasta laugardag hvers mánaðar. Yngri kynslóðin virtist skemmta sér konunglega og sú eldri ekki síður.

 

m2

Allir hlusta stilltir og prúðir.

 

 

m3

Börnin eru áhugasöm að skoða bókina að lestri loknum.

 

Seinna þann dag bauð Norræna félagið í Reykjanesbæ upp á Konsertkaffi. Þá komu Arnór Vilbergsson og Elmar Þór Hauksson og sungu norræn lög fyrir gesti og boðið var upp á norræna munnbita og saft að dagskrá lokinni.

m4

 

Bogi Ágústsson fréttamaður hélt stutta tölu um starfsemi Norræna félagsins.

 

 

m5

Norrænir munnbitar, saft og kaffi fyrir gesti.

 

m6

Arnór og Elmar léku á alls oddi og fengu gesti m.a. til að syngja með.

 

Mánudaginn 26.mars var boðið upp á Kakóhugleiðslu og heilandi tóna með Kamillu Ingibergsdóttur í Hugleiðsluhádegi. Lessalur safnsins var nánast rýmdur og segja má að fullt hafi verið út úr dyrum.

m7

Kamilla kynnir kakóhugleiðslu fyrir gestum.

 

Starfsfólk safnsins vill þakka bæjarbúum fyrir frábær viðbrögð og vonast til að sjá  sem flesta á komandi viðburðum.