Reynir að lifa eftir speki Pollýönnu

Lesandi vikunnar les að lágmarki 2 – 3 bækur í hverri viku og telur lestur vera mjög mikilvæga afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Eygló Geirdal Gísladóttir leyfir lesendum að skyggnast inn í sinn bókaheim.

 Þessa stundina er Eygló að lesa tvær bækur, önnur bókin er hljóðbók en það er bókin Rof eftir Ragnar Jónasson. Hin bókin heitir Mamma, pabbi, barn eftir Carin Gerhardsen.

Bókin Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness er alltaf í miklu uppáhaldi hjá Eygló. Hún minnist þess með hlýju þegar hún var heima með elsta barnið sitt og var farin að geta sett hann út í vagn og gat svo sjálf átt sínar sælustundir með bókum eftir Kiljan á meðan barnið svaf. Bækur eftir Jón Kalman eru einnig í miklu uppáhaldi en sérstaklega bókin Himnaríki og helvíti. ,,Ég þurfti á tímabili að vera með teppi, mér var svo kalt“ en Eygló lifði sig mjög inn í bókina. Eygló les annars ekki bækur aftur og aftur, en hún hefur verið í bókaklúbb í ein 15 ár og þar er ný bók lesin í hverjum mánuði.

Eftirlætishöfundur Eyglóar er Jón Kalman en textar hans þykja henni vera sérstaklega fallegir og ólíkir öllum öðrum. Einnig heldur hún mikið upp á fyrstu bækur Halldórs Laxness.

,,Ég les bara allt“ segir Eygló þegar hún er innt eftir því hvernig bækur hún lesi helst. Þegar hún hefur lesið of mikið af þungum bókum um erfið samfélagsleg mál grípur hún í léttmeti inn á milli.

Þær bækur sem hafa haft hver mest áhrif á Eygló eru nokkrar. ,,Mér finnst gaman að lesa bækur um gamla tímann,  hvað fólkið þurfti að ganga í gegnum. Þar finnst mér Himnaríki og helvíti vera fremst í flokki. “ Bókin Tvísaga eftir Ásdísi Höllu hafði einnig áhrif á Eygló en þessi harða lífsbarátta þykir henni einkar merkileg. Pollýönnu bækurnar höfðu einnig mikil áhrif á Eygló og segist hún hafa reynt að lifa eftir speki hennar.

Það er engin spurning í huga Eyglóar þegar hún er spurð hvaða bók allir hefðu gott að því að lesa: ,,Sjálfstætt fólk. Lífsbaráttan og að standa á sinni meiningu og standa við sína meiningu þó svo hún falli ekki í kramið hjá öllum.“

Eygló kýs helst að lesa upp í rúmi á kvöldin en það hefur verið eini tími dagsins sem hún getur slakað á og lesið, ,,annars hefur mér fundist eins og ég sé að svíkjast um.“ Eygló stefnir á að hætta að vinna í sumar og hlakkar mikið til að eyða tímanum í að lesa, allt sem hugurinn girnist.

Þær bækur sem Eygló mælir með í sumarlesturinn eru bækurnar Tvísaga eftir Ásdísi Höllu og bókin Mannsævi eftir Robert Seethaler.

Eygló er handviss um hvaða bók færi með á eyðieyju ,,Himnaríki og helvíti eftir Jón Kalman Stefánsson.“

Í sumar ætlar Eygló að njóta þess að slappa af, fara í sumarbústaðinn, spila golf og að sjálfsögðu lesa.

Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11-17. Rafbókasafnið er alltaf opið – nánari upplýsingar á heimasíðu safnsins. Á heimasíðu safnsins http:sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.