Pokastöð í Krónunni Reykjanesbæ
Krónan í Reykjanesbæ hefur nú bæst í hóp þeirra sem bjóða upp á margnota taupoka til láns. Pokastöðvar má finna í Bókasafni Reykjanesbæjar, verslunum við Hafnargötuna og nú í Krónunni á Fitjum. Hægt er að fá lánaðan fjölnota poka úr pokastöðinni þegar verslað er og síðan er pokanum skilað aftur í næstu innkaupaferð.
Pokastöðvar eru til í nokkrum sveitarfélögum á Íslandi en það er stöð þar sem fólk getur fengið að láni margnota taupoka, t.d. í bókasafninu og matvöruverslunum. Margir eiga það til að gleyma margnota pokum heima og þá er hægt að fá taupoka að láni og skila honum síðar á hvaða Pokastöð sem er.
Pokastöðin er samfélagsverkefni sem snýst um að búa til hringrás taupoka í samfélaginu. Verkefnið sem hófst á Hornafirði á vormánuðum 2016 er í dag hluti af alþjóðlegu verkefni sem heitir Boomerang Bags og á það uppruna sinn í Ástralíu.
Saumað fyrir umhverfið - Annan hvern mánudag kl. 16.00-18.00 eru margnota taupokar saumaðir í Bókasafni Reykjanesbæjar. Pokarnir fara allir í Pokastöðvarnar. Allir hvattir til að taka þátt.