„Ótrúlega skemmtilegt að vera í leshring bóksafnsins.“
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Bryndís Kjartansdóttir jógakennari og starfsmaður á skrifstofu Verslunarmannafélags Suðurnesja. Bryndís er í Leshring bókasafnsins sem hittist einu sinni í mánuði og spjallar um eina ákveðna bók sem hópurinn velur saman.
Hvaða bók ert að lesa núna?
Núna er ég að byrja á bók sem heitir Það sem dvelur í þögninni. Ég er svo heppin að vera í Leshring Bókasafns Reykjanesbæjar, þar ákveðum við eina bók í sameiningu, lesum hana og hittumst svo einu sinni í mánuði og ræðum bókina. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt og ég mæli með þessu, allir svo mikið velkomnir. Við í Reykjanesbæ eigum svo frábært bókasafn og þetta er eitt af því flotta sem þau sem þar vinna bjóða upp á.
Hver er uppahaldsbókin?
Ég á ótrúlega margar uppáhalds.
Hver er uppáhalds höfundurinn þinn?
Enginn sérstakur.
Hvaða tegund bóka lestu helst?
Ég get lesið nánast allt nema ljótar sögur, það get ég ekki. Ég er alltaf með bækur um heimspekina á bak við jógafræðin mín, það er ómissandi speki fyrir mig. Þegar ég finn að ljósið í sálinni er að dofna þá gríp ég í þessa speki og áður en að ég veit af er brosið orðið bjartara og augun skærari út á það gengur þetta að líða vel í sálinni og bækur geta svo sannarlega hjálpað okkur þar.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrif á þig?
Flestar bækur sem ég les hafa áhrif, en ég get til dæmis nefnt bók sem ég fékk í jólagjöf árið 1976 þá 10 ára en hún heitir Litla dansmærin og ég man ennþá eftir henni. Borða biðja elska hafði líka mikil áhrif á mig en ég hef farið tvisvar til Balí eftir að ég las hana. Síðast var það Handan fyrirgefningarinnar eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem hafði mikil áhrif á mig enda mögnuð bók.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Lífsreglurnar fjórar eftir Don Miguel Ruiz.
Hvar finnst þér best að lesa?
Í bleika stólnum okkar í stofunni með svakalega góðan kaffibolla.
Hvaða bækur standa uppúr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Þegar ég las Sjálfstætt fólk eftir Laxness ákváðum ég og ein af mínum allra bestu að lesa hana einu sinni á ári, það gekk í nokkur ár. Ég þori alveg að mæla með henni, Bjartur í Sumarhúsum er bara svo áhugaverður.
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Litla dansmærin.
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.