,,Öllum hollt að lesa símaskránna“

,,Öllum hollt að lesa símaskránna“

 

Lesandi vikunnar tæki bókina um Góða dátann Svejk með sér á eyðieyju því alltaf er hægt að skemmta sér við vitleysisganginn í honum. Kristján Jóhannsson leigubílsstjóri, leiðsögumaður og kórdrengur er Lesandi vikunnar að þessu sinni.

Kristján var gripinn glóðvolgur við lestur í Bókasafninu á dögunum. Hann var þá nýbúinn að skila bókinni Öreindirnar eftir franska höfundinn Michael Holberg og las í bókinni Útkall í hamfarasjó. Kristján les alltaf mikið og les nánast hvað sem er að eigin sögn. Honum finnst góð glæpasaga vera eins og góð videospóla.

Að mati Kristjáns er bókin Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones epísk og í miklu uppáhaldi. Einnig nefnir hann bækurnar Býr Íslendingur hér? sem Garðar Sverrisson skrifaði um ævi Leifs Möller, Góði dátinn Svejk eftir Jaroslav Hašek og Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er alltaf í uppáhaldi.

Kristján var mikill aðdáandi Gunnars Gunnarssonar á yngri árum. Einnig heldur hann mikið upp á bækur Einars Más og Jóns Kalmanns. Halldór Laxness er alltaf í miklu uppáhaldi en honum segir stílinn hans vera afgerandi flottan.

Kristján segist síst lesa íslenskar skáldsögur en hallist alltaf að stórum sögum. Einnig hafa æviminningar lengi verið í uppáhaldi. Glæpasögur hafa alltaf verið í uppáhaldi og er James Patterson í miklu uppáhaldi. Áður fyrr las Kristján allar bækur hjónanna Maj Sjöwall og Per Wahlööog Alistair MacLean en hann hefur ekki lesið bækur eftir hann í tugi ára.

Híbýli vindanna eftir Böðvar Guðmundsson og Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness eru þær bækur sem hafa haft hve mest áhrif á Kristján.

Þegar Kristján er inntur eftir því hvaða bók allir ættu að lesa með það bakvið eyrað að gera heiminn að betri stað stendur ekki á svörum. ,,Ég held að það væri öllum hollt að lesa símaskránna og uppgötva hvað við erum í raun og veru fá og hvað við getum haft það raunverulega gott“. Annars telur hann erfitt að nefna eina bók en mælir með mannlýsingum Jóns Kalmanns.

Kristjáni finnst best að lesa í rúminu en þar segist hann reyndar sofna allt of fljótt. ,,Ég les orðið mest í bílnum en ég þarf að bíða mikið og er alltaf með bók í bílnum. Ipadinn hefur reyndar breytt miklu en maður er fljótur að detta í Youtube fæla og Netflix, en maður verður að lesa.“

Kristján mælir með nokkrum bókum og höfundum í sumarlesturinn en efst á lista er Kirkja hafsins, bækur eftir Einar Má og Einar Kárason. Kristján mælir líka með bókum Guðrúnar frá Lundi þó hann hafi ekki lagt í þær ennþá.

Bókin sem myndi rata með á eyðieyju yrði Góði dátinn Svejk því hún er mátulega þykk og alltaf er hægt að skemmta sér við vitleysisganginn í honum, að sögn Kristjáns.

Í sumar ætlar Kristján að vinna og fara í ferðalag með fjölskyldunni. Hann kaupir alltaf eina bók í Fríhöfninni og á sumrin velur hann frekar léttmeti með í fríið.