Ófríða stúlkan snýr aftur

Langflestir viðskiptavinir bókasafnsins skila bókum aftur til okkar á tilsettum tíma, nú eða óska eftir framlengingu á láninu.

Það er bón sem starfsfólk bókasafnsins verður við með glöðu geði, enda fátt leiðinlegra en að fá senda til sín rukkun.

Sumar bækur geta þó skemmst eða týnst eins og raunin er með bókina sem ber þann óskemmtilega titil Ófríða stúlkan. Bókin er eftir höfundinn Anne-Marie Selinko og bókinni er lýst sem: ,,Nútíma skáldsaga frá Vínarborg". Þýðing sögunnar var í höndum Ívars Guðmundssonar.

Bókin fór í útlán árið 1943 og þá ekki frá Bókasafni Reykjanesbæjar, heldur Lestarfjelagi Keflavíkurhrepps.

Bókin fannst í flutningum fyrir stuttu og hefur varðveist nokkuð vel í þann tíma sem hún var í útláni.

Bókin er nú til sýnis í Bókasafni Reykjanesbæjar og minnir okkur góðfúslega á að skila bókum á tilsettum tíma eða óska eftir framlengingu.