Myndlist og tónlist í bókasafninu á Ljósanótt
Bókasafnið tók þátt í Ljósanótt 2018, bæjarhátíð Reykjanesbæjar dagana 30. ágúst - 2. september.
Myndlistarsýningin List sem gjaldmiðill - ARTMONEY NORD var opnuð fimmtudaginn 30. ágúst og kynnti Arnþrúður Ösp Karlsdóttir verkefnið fyrir gestum en hún er einn af 27 norrænu listamönnunum sem taka þátt í verkefninu.
ARTMONEY NORD er myndlistarverkefni þar sem listamenn af Norðurlöndunum skapa sinn eigin gjaldmiðil. Artmoney er val um „gjaldmiðil“ þar sem hægt er að velta fyrir sér hvað er sanngjarnt menningar- og efnahagslegt verðgildi í listum.
Sýningin hefur vakið lukku meðal gesta safnsins og þónokkur verk hafa selst.
Á föstudeginum 31. ágúst voru haldnir tónleikar í miðju safnsins með tónlistarmanninum S.hel sem samdi skor við kvikmyndina Battleship Potemkin og var myndin einnig sýnd. Falleg raftónlist S.hel ómaði því um safnið í einn og hálfan klukkutíma og var virkilega góð og öðruvísi stemning í safninu þennan föstudaginn.