Myndi taka fyndna bók með á eyðieyju

Guðlaug María Lewis fræðslufulltrúi menningarmála Reykjanesbæjar er Lesandi vikunnar að þessu sinni. Hún las oft bókina Baneitrað samband á Njálsgötunni sem unglingur og bókin fær hana enn til að skella upp úr.

Guðlaug María er nýkomin frá Bandaríkjunum úr sumarfrí með fjölskyldunni. Þar las hún m.a. bókina Synt með þeim sem drukkna eftir Lars Mytting og núna er hún að lesa bókina Konan í blokkinni eftir Jónínu Leósdóttur.

Þær eru nokkrar bækurnar sem Guðlaug María hefur lesið nokkru sinnum. Sem stelpa las hún bókina um Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren nokkru sinnum og sem unglingur las hún oft bókina Baneitrað samband á Njálsgötunni eftir Auði Haraldsdóttur en sú bók fær hana enn til að skella upp úr, en hana las hún aftur og aftur. Einnig las hún oft bókina um Viggó viðutan og vandræðaganginn í honum á unglingsárunum. Nýjasta eftirlætisbók Guðlaugar Maríu er bókin Bókmennta- og kartöflubökufélagið eftir Marie Ann Shaffer og Annie Barrows.

,,Ég get ekki sagt að ég eigi beinlínis einn uppáhaldshöfund“ segir Guðlaug María en hún hefur aldrei tekið sig til og lesið allt eftir einhvern einn höfund. Þó segist hún sennilega hafa lesið mest eftir Astrid Lindgren.

Örlagasögur og fjölskyldusögur eru þær tegundir bóka sem Guðlaug María sækir einna helst í, bækur sem flétta saman drama og ástum og það er alls ekki verra ef þær eru fyndnar. ,,Ég les spennusögur í bland en það er meira eins og að horfa á bíómynd sem skilur ekkert eftir sig og ég er búin að gleyma um leið og ég loka bókinni.“

,,Dagbók Önnu Frank hafði mikil áhrif á mig“ segir Guðlaug María en hún las þá bók um fermingaaldur. Einnig nefnir hún bókina Svo fögur bein eftir Alice Sebold.

Guðlaug María er handviss um að allir hefðu gott af því að lesa bækurnar Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren og bókin Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini.

Guðlaug kýs helst að lesa upp í rúmi á kvöldin en hún les eiginlega eingöngu þar nema þegar hún er fríi. ,,Ég myndi lesa miklu meira ef ég hefði tíma í það en nýti þær stundir sem gefast vel.“

Fyrir áhugasama lesendur mælir Guðlaug með nokkrum bókum en það eru Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini, Bókmennta- og kartöflubökufélagið Marie Ann Shaffer og Annie Barrows, Svo fögur bein eftir Elice Sebold og Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur en sú síðasta þótti Guðlaugu vera mjög áhrifamikil.

Ef að aðeins ein bók gæti farið með Guðlaugu Maríu á eyðieyju þarf hún aðeins að hugsa sig um. ,,Hvort myndi maður vilja hlægja eða gráta ef maður lenti á eyðieyju? Ég myndi taka með Viggó viðutan og hlægja að vitleysunni í honum“  segir hún eftir nokkra umhugsun.

Framundan í sumar er að lesa góðar bækur, taka til í garðinum og húsinu. ,,Vonandi kemst ég líka eitthvað í veiði.“

Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11-17. Rafbókasafnið er alltaf opið – nánari upplýsingar á heimasíðu safnsins. Á heimasíðu safnsins http:sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.