Minni streita og meiri gleði yfir hátíðirnar

Margrét Pála Ólafsdóttir uppeldis- og menntamálafrömuður kom í heimsókn á síðasta Foreldramorgunn ársins.

Margréti Pálu lá margt á hjarta en velferð barna og gæðastundir fjölskyldunnar voru efst á baugi. Magga Pála, líkt og hún er oftast kölluð, talaði um mikilvægi framkvæmdarstjóra heimilisins sem í flestum tilfellum eru mæður. Þá lagði hún ríka áherslu á að mæður gefi sér góðan tíma með börnum sínum og njóti fæðingarorlofsins. Að hennar mati er tími nýja gull Vesturlandabúa, ekki peningar og veraldleg auðævi, þó að þau séu að sjálfsögðu mikilvæg líka í lífsbaráttunni.

 

Varðandi jólahald þá lagði Magga Pála mikla áherslu á það að koma í veg fyrir streitu, allra vegna. Til dæmis nefndi hún búðarferðir fyrir jól og hversu streituvaldandi þær geta verið fyrir börn og foreldra. Öll börn myndu vafalaust kjósa sér það frekar að eyða tíma í ró og næði með foreldrum sínum, ömmum eða öfum frekar en að fara í Kringluna, svo dæmi sé tekið.

Hefðir fyrir jól geta verið margvíslegar en þær þurfa alls ekki að vera flóknar. Gönguferð á aðfangadag getur verið öllum í fjölskyldunni nauðsynleg og dýrmæt minning, ferð út í náttúrunni með kakó í brúsa skilur að öllum líkindum meira eftir sig en jólaböll í verslunarkjörnum og svo mætti lengi telja. Magga Pála leggur ríka áherslu á að jólin séu sniðin að börnum og fjölskyldustundum frekar en lífsgæðakapphlaupi og smákökusamkeppnum. Öllum foreldrum er frjálst að skapa eigin hefðir og hvatti hún foreldra að finna kjarkinn til að breyta og leggja niður úreltar hefðir.

Nokkrar leiðir til að draga úr streitu fyrir og um jól:

*Jólagjafir þurfa ekki að vera dýrar og það þarf ekki að gefa öllum gjafir. Vandið valið og föndrið sjálf sé þess kostur.

* Það þarf ekki að kaupa fokdýr jólatré, það gæti verið nóg að saga lúna grein af gömlu tré í skógi sem má svo skreyta þegar heim er komið.

* Það þarf ekki að baka margar sortir fyrir jólin, tilbúin deig úr búð geta framkallað jafn mikla gleði við bakstur og ein sort dugar í flestum tilfellum.

* Reynið að fá pössun fyrir börnin frekar en að taka þau með í endalausar búðaferðir.

* Forðumst hótanir og mútur með jólasveinum, kartöflum og Grýlu.

* Reynið að undirbúa hátíðarkvöldverðinn á aðfangadag kvöldinu áður, eða eins mikið og hægt er.

* Sundferð á aðfangadag sameinar jólabað, útrás, samverustund, hreyfingu og kemur matarlystinni í gang.

* Það þarf ekki að opna alla pakka eftir kvöldmat. Það má opna nokkra fyrir mat, eftir mat og morguninn eftir jafnvel. 

* Munið eftir börnunum í jólaboðunum; er borðað nógu reglulega, eru þau þreytt o.s.frv. 

* Munið að njóta samverustunda með börnunum ykkar, skapið góðar minningar og munum hver er besti leikurinn; Kærleikurinn auðvitað!

 

Við þökkum Möggu Pálu kærlega fyrir ljúfa samveru og óskum ykkur streitulausra jóla!