Miðlar skelfilegum veruleika með sagnagerð

Fyrsta bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Elsku besta Binna mín, kom út haustið 1997, fyrir ríflega 20 árum. Kristín Helga hefur alla tíð síðan fengist við ritstörf; skrifað bækur, pistla og einnig kennt ritlist í Listaháskóla Íslands og í Háskóla Íslands.

 

Áður starfaði Kristín Helga sem fréttamaður um ellefu ára skeið. Aðallega í erlendum fréttum í útvarpi og sjónvarpi, Stöð tvö og Bylgjunni. Hún nam blaðamennsku og spænsku í Bandaríkjunum og á Spáni. 

 

Kristín Helga hefur eins og aðrir horft upp á hryllinginn í Sýrlandi frá því að borgarastyrjöldin hófst þar árið 2011.

 

,,Ég hef líka horft í gegnum tíðina, úr okkar þægilegu, vestrænu fjarlægð, á ótal átök um allan hnöttinn. Þessi átök blossa upp af fáránlegum ástæðum og allskonar fólk með andstyggilega hagsmuni viðheldur stríðsmaskínunni á meðan börn og saklausar manneskjur deyja. Mig langaði að nota mitt verkfæri, sögugerð, og minn bakgrunn sem fréttamaður, til að miðla þessum veruleika - upp að því marki sem ég get miðlað, verandi hvít forréttindakona í friðsömu samfélagi“ segir Kristín.

 vertuosynilegur

Bókin Vertu ósynilegur - flóttasaga Ishmaels kom út fyrir jólin 2017 og hefur notið verðskuldaða athygli. Sagan fjallar um flótta unglingsdrengsins Ishmael frá Aleppo í Sýrlandi og einnig hvernig fjölskyldu á Íslandi gengur að fóta sig í nýju samfélagi. 

Kristín Helga segir það vera lykilinn að mennskunni að geta sett sig í spor annara. Þegar manneskjan hættir að geta það þá hefur hún misst allt. Í bókinni segir Kristín Helga því í raun sögu margra en hún viðaði að sér eins miklum upplýsingum og hún mögulega gat við vinnu bókarinnar.

 

,,Ég tók viðtöl við Sýrlendinga sem eru nýkomnir hingað og líka þá sem hafa verið lengi, talaði við hjálparstarfsmenn, safnaði sögum, las bækur og lá yfir fréttum og fréttaþáttum, hlustaði á viðtöl og frásagnir og dró saman í mína frásögn. Ég reyndi að vera eins nákvæm og ég mögulega gat. Þannig eru persónurnar í sögunni skáldaðar, en þær byggja á mörgum manneskjum og allt sem þær upplifa hefur gerst og er að gerast í raun og veru. Því lengra sem ég kafaði ofan í efnið því mikilvægara fannst mér að hafa alltaf sannleikann að leiðarljósi. Það hefði verið vanvirðing við þetta fólk að sitja hér uppi á Íslandi og reyna að skálda í einhverjar eyður. Þannig eru staðhættir og staðreyndir samkvæmt heimildum. Tilfinningar og upplifun og jafnvel nokkuð mörg samtöl byggja einnig á raunveruleikanum, fréttum og frásögnum.“ 

 

 

Vertu ósýnilegur hefur hlotið Fjöruverðlaunin og Bóksalaverðlaunin og einnig verið tilnefnd til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna og Barna- og ungmennabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Kristín segir það hafa mjög mikla þýðingu fyrir þessa bók að fá það ljós og þá athygli sem fylgir verðlaunum og viðurkenningum. Þannig fá málefni flóttafólks athygli, fólk les, ræðir saman og verður upplýstara. Þannig getur fólk kannski betur sett sig í spor annarra. ,,Þá er markmiði mínu náð“ segir Kristín.

 

Þetta segir Kristín vera ástæðu þess að hún skrifaði bókina; til að auka á upplýst samtal. ,,Ég skrifaði hana líka þannig að hún næði til sem flestra í aldri, unglinga og fullorðinna. Það gerði ég til að stækka samtalið og mig langar til að hún verði kennsluefni í skólum. Við þurfum að taka þetta samtal við framtíðarfólkið og það þarf að vera upplýst og má ekki byggja á fáfræði og þröngsýni. Líf fólks eru í húfi“ bætir Kristín við alvörugefin. 

 

Kristín Helga situr að sjálfsögðu ekki auðum höndum um þessar mundir og hefur ekki alveg kvatt Ishmael. ,,Mig langar að gera framhald af Flóttasögu Ishmaels og fylgja honum eftir og sjá hvernig honum vegnar“ segir Kristín.

 

 

Margir áhrifavaldar koma við sögu þegar hún er spurð um sína mestu fyrirmynd í ritstörfunum.

 

,,Margar stórar og gamlar stjörnur hafa vísað mér veginn í skrifunum. Astrid Lindgren með tæra hugsun, kærleika og undirliggjandi kímni, þungan og mikilvægan undirtón sem gerir sögurnar hennar tímalausar. Sömuleiðis Guðrún Helgadóttir sem spilar á svipaða strengi. Þær eru nákvæmar og alltaf með tilgang og hafa húmor fyrir hversdeginum. Halldór Laxness og aðferðarfræðin hans hefur áreiðanlega mótað, Þórbergur Þórðarson, ólíkindalætin og hömluleysið. Allt sem maður les hefur áhrif á hvernig maður skrifar. Ég ólst upp við Roald Dahl, Dr. Seuss, C.S. Lewis, Lewis Carol, Tolkien, Blyton, Mark Twain, Montgomery, Önnu Frank, Beverly Grey, Nancy, Pollýönnu, Hjalta litla, Tinna og Millý Mollý Mandý. Í seinni tíð hef ég haft gaman af Rowling, Suzanne Collins, Kaaberböl og Pullman. En svo les ég líka ljóð og þau hafa  mikil áhrif á tilfinningaferli, stíl og flæði. Fyrst og síðast er ég þó afsprengi Astridar. Hún er alltaf mín uppspretta og ég les Línu reglulega til að stappa í mig stálinu. Ég held að það sem ég las þegar ég var yngri hafi meiri áhrif á það hvernig höfundur ég hef orðið en það sem ég les núna. Ég finn að ég er mun gagnrýnni á það sem ég les núna og tek minna af því með mér inn í eigin verk- en það er óskaplega notaleg tilfinning að lesa eitthvað nýtt sem er bæði lærdómur og innblástur. Svo eru það þeir sem standa hjarta næst. Íslenskukennarar fortíðar voru áhrifavaldar, móðurafi og amma með þjóðsagnaarfinn á eldhúsborðinu og foreldrar sem báru bækur í hús, eru sögumenn og samfélagsrýnar. Allt hefur áhrif“.