Menningarkonfekt með hátíðlegum blæ

Vinsæl menningardagskrá

 

Þriðjudaginn 24. nóvember og miðvikudaginn 2. desember var beint streymi frá Hljómahöll með glæsilegri menningardagskrá fyrir börn og fullorðna. 

 

Ár hvert hefur starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar staðið fyrir Bókakonfekti fyrir börn og fullorðna fyrir jólin. Á viðburðunum hafa höfundar komið og lesið úr nýjustu verkum sínum og tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hafa prýtt dagskrána hátíðlegum blæ.

 
Í ár var ákveðið að halda viðburðina þrátt fyrir takmarkanir og streyma þeim í gegnum veraldarvefinn. Starfsfólk Hljómahallar og  Bókasafns Reykjanesbæjar lögðust á eitt og úr varð glæsileg dagskrá sem streymt var á facebook síðum safnanna tveggja, Reykjanesbæjar og Víkurfrétta.

 

Menningarkonfekt

Rithöfundarnir Gerður Kristný, Gunnar Helgason og Björk Jakobsóttir lásu úr nýútkomnum barnabókum sínum og Salka Sól flutti hátíðleg jólalög ásamt gítarleikara á menningarkonfekti barnanna.

Þá kom tríóið GÓSS og lék hugljúf lög á menningarkonfekti fullorðinna. Bræðurnir og Njarðvíkingarnir Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Óskar eru meðlimir tríósins ásamt söngkonunni Sigríði Thorlacius. 

Rithöfundarnir sem komu lásu úr og spjölluðu um sínar nýjustu bækur en það voru þau Sólborg Guðbrandsdóttir með bókina Fávita, Jón Kalman Stefánsson með bókina Fjarvera þín er myrkur og Auður Ava Ólafsdóttir með bókina Dýralíf.

Kynnir var Anna Margrét Ólafsdóttir.

 

Viðburðunum var vel tekið og hafa nú ríflega 11.000 horft á viðburðinn, jafnvel fleiri ef fleiri en einn voru við hvert tæki. 

 

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkti hluta dagskrárinnar.