Lesandi vikunnar - Sigmundur Már
Í hverri viku í allt sumar verður valinn Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar. Lesandi vikunnar verður birtur í Víkurfréttum alla fimmtudaga í sumar. Í lok hvers mánaðar fær einhver einn heppinn lesandi lestrarverðlaun. Allir sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda þurfa að skrá sig en það er hægt að gera í afgreiðslu Bókasafnsins eða á heimasíðu safnsins.
Sigmundur Már Herbertsson er starfsmaður í Björk-sérdeild og körfuboltadómari. Hann nýtir tímann vel þegar hann ferðast og les mikið.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Það er bókin Bubble eftir Anders De La Motte. Þetta er lokabókin í þríleik. Hinar heita Game og Buzz. Ég mæli eindregið með þessum bókum. Einnig er bókin Basketball for Everyone alltaf á náttborðinu.
Hver er þín eftirlætis bók?
Margar góðar en get ekki nefnt einhverja eina sérstaklega.
Hvernig bækur lestu helst?
Les helst spennu- og glæpasögur.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Það er bókin Englar alheimsins. Hún vekur mann til umhugsunar um andleg veikindi og þau áhrif sem þau hafa á einstaklinga og þeirra nánustu.
Hvar finnst þér best að lesa?
Eiginlega hvar sem er en ég les mikið í flugvélum þegar ég ferðast vegna dómgæslunnar. Stundum þarf ég að bíða lengi á flugvöllum og þá er gott að hafa bók að glugga í.
Hver er þinn uppáhalds rithöfundur?
Erfitt að gera upp á milli svo ég nefni þá Jussi Adler-Olsen, Lee Child og Stefán Mána.
Við þökkum Sigmundi kærlega fyrir!
Vilt þú tilnefna næsta lesanda vikunnar ?
Komdu í afgreiðslu safnsins eða ýttu á þennan hlekk: http://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/thjonusta/fullordnir/lesandi-vikunnar