Lesandi vikunnar - Erla Guðmundsdóttir

Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavíkurkirkju er Lesandi vikunnar. Bókin um Heiðu litlu í Alpafjöllunum er sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á hana fyrir utan bók bókanna að sjálfsögðu. 
 
Hvaða bók ertu að lesa núna?
 
Svo tjöllum við okkur í rallið eftir Guðmund Andra Thorson sem fjallar um föður hans Thor Vilhjálmsson. Falleg og vel skrifuð bók um samband þeirra feðga.
 
Hver er þín eftirlætis bók?
 
Það er bók bókanna, Biblían, en ég les í henni á hverjum degi og mun gera það um ókomna tíð. Þeim mun meira sem ég les finn ég alltaf meiri visku, veganesti og huggun í þessari bók.
Biblía er grískt orð sem merkir bókasafn en í Biblíunni eru 66 bækur sem eru skrifaðar á nokkrum árþúsundum. Bækurnar eru svo miklu meira en trúarrit, þær eru líka samfélagsspegill þar sem hægt er að fræðast um svo margt eins og stöðu kvenna á hverjum tíma og það má meira að segja finna uppskriftir!
 
Hver er eftirlætis höfundurinn þinn?
 
Ég á engan eftirlætis höfund, nema höfund Biblíunnar,  því ég er ekki föst í ákveðnum verkum.
 
Hvernig bækur lestu helst?
 
Helst eru það fræðibækur og ævisögur. Síðustu ár hafa ljóðabækur bæst við. 
 
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?
 
Fyrir utan Biblíuna er það sagan af Heiðu litlu í Alpafjöllunum. Pabbi minn las hana fyrir mig þegar ég var lítil stúlka en hann fékk bókina frá foreldrum sínum í jólagjöf sem barn. Sú bók á meira að segja sérstakan stað í bókahillunni minni. Mér þykir svo fallegt hvernig stúlkan í sögunni varðveitir hjartahlýju og góðvild, sama hvað á dynur.
 
Hvaða bók ættu allir að lesa?
 
Sálmabókina en það er bók sem flestir eiga heima hjá sér. Sálmar eru bænir og aftast má til að mynda finna sálm eða bæn fyrir hvern dag vikunnar bæði kvölds og morgna. Sálmarnir geyma mikla visku og verkfæri til að takast á við daglegt líf, bókin á því heima á náttborðinu á kvöldin eða við kaffikönnuna að morgni til.
 
Hvar finnst þér best að lesa?
 
Mér þykir best að lesa heima í stofu, í rauða stólnum á Brunnstígnum.
 
Hvaða bækur standa upp úr sem þú vilt mæla með?
 
Leitin að tilgangi lífsins sem fjallar um mann að nafni Viktor E.Frankl sem lifði af nasistabúðirnar í seinni heimsstyrjöldinni. 
 
Einnig mæli ég með bók Árna Bergmanns, Eitt á ég samt, þar segir hann m.a. svo skemmtilega frá lífi sínu í Keflavík.

 
 
Við þökkum Erlu kærlega fyrir og minnum á heimasíðu safnsins: http://sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn/thjonusta/fullordnir/lesandi-vikunnar þar sem hægt er að mæla með Lesanda vikunnar.