Lesandi vikunnar er Sigga Dögg
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar
Sigríður Dögg Arnardóttir eða Sigga Dögg eins og hún er alltaf kölluð er lesandi vikunnar að þessu sinni. Sigga Dögg er kynfræðingur og hefur sjálf gefið út tvær bækur og sú þriðja er á leiðinni.
Sigga Dögg er um þessar mundir í fæðingarorlofi með sínu þriðja barni en gefur sér ávallt tíma til að lesa. Hún er einmitt að byrja bókinni Dimmu eftir Ragnar Jónasson en það er fyrsta bókin sem hún les eftir hann.
Hún segist vera mest fyrir bækur sem fjalla um líf kvenna sem flakka í tíma og rúmi. Hún er hrifin af persónulegum sögum og getur ekki valið einhverja eina bók sem sína uppáhalds bók en var mjög hrifin af bókunum um Harry Potter.
Eins segist hún ekki geta valið einn höfund fram yfir annan og fylgi ekkert endilega eftir öllum verkum eins höfundar. Hún les frekar sögur eftir konur og er mjög hrifin af J.K.Rowling því hún notar ekki of stór orð og hún stóð frammi fyrir mörgum hindrunum sem hún yfirsteig. Einnig er Sigga Dögg mjög hrifin af verkum Gerðar Kristnýjar því hún notar fá orð til að koma sköpun sinni á framfæri. Einnig hrífst hún af rithöfundum á borð við Kristínu Marju Baldursdóttur og Vigdísi Grímsdóttur.
Bækurnar sem rata einna helst til Siggu Daggar eru bækur með ævisöguþema, uppeldistengdar bækur og bækur um kynfræði. Þær bækur sem hafa haft hve mest áhrif á Siggu Dögg eru bækurnar Árin sem enginn man, Hollráð Húgós, Karítas, Ljósa og Litlar byltingar en síðustu þrjár hafa hjálpað henni að skilja íslenskar konur og þar af leiðandi sjálfa sig.
Þegar Sigga Dögg er spurð hvaða bók allir ættu að lesa stendur ekki á svörum: Kjaftað um kynlíf!
,,Kynlíf og umræðan um það þarf að hætta að vera tabú! Þetta snertir okkur öll á einn eða annan hátt og við breytum engu til hins betra nema við byrjum að tala saman!“
Sigga Dögg veit fátt betra en að lesa út í Guðs grænni náttúrunni, í skjóli og helst sól.
Þær bækur sem Sigga Dögg mælir með eru Litlar byltingar, Karítas, Harry Potter, Grandavegur 7, Bíbí, Þarmar með sjarma (hún segist sjaldan hafa vitnað eins oft í eina bók) Kjaftað um kynlíf og Á rúmstokknum.
Á eyðieyju tæki Sigga Dögg ekki með sér bók til að lesa, hún tæki með sér auða dagbók. ,,Ég skrifa mikið og hef alltaf gert, það myndi ekki breytast á eyðieyju!“
Í sumar stefnir Sigga Dögg á að eyða tímanum með fjölskyldunni, fara á róló, í sund, í útilegur og síðast en ekki síst að klára að skrifa unglingabókina sem kemur út fyrir jól.