Lesandi vikunnar er Arnór Brynjar Vilbergsson

Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar

 

Fyrsti lesandi vikunnar þessa sumars er Arnór Brynjar Vilbergsson kantor Keflavíkurkirkju.

 

Arnór býður upp á kaffi í Syndinni sem er lítið afdrep uppi á kirkjuloftinu fyrir kórinn og fleiri góða gesti.

Eitt aðaláhugamál Arnórs er lestur en hann segir síma og önnur raftæki vera hans helsta óvin þegar kemur að því að setjast niður og lesa. Hann er þó yfirleitt með einhverja bók í lestri og segist hann núna vera að berjast við Don Kíkóta. Þrátt fyrir að bókin sé ekki auðlesin segist hann oft hafa skellt upp úr við lesturinn. Einnig er hann að lesa bók eftir Elínborgu Lárusdóttur en fyrir tilviljun hafi hann rekist á bókina Strandakirkja í Bókasafninu eftir hana og heillast af frásagnastíl hennar.

Eftirlætisbækur Arnórs eru Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson og Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones.

Carlos Ruiz Zafon er uppáhalds höfundur Arnórs en hann hefur lesið allar bækur eftir hann en má þar nefna bækur á borð við Skuggi vindsins og Leikur engilsins. Textinn þykir honum vera vel skrifaður og ljóðrænn en hann gæti hugsað sér að taka einhverja eina bók frá þessum höfundi með sér á eyðieyju þar sem hægt er að velta textanum lengi fyrir sér.

Arnór les þó mest af glæpasögum og hefur t.a.m lesið allar bækur Arnalds Indriðasonar og Camillu Läckberg. Hann segir ástæðuna fyrir því sennilega vera að nýjar glæpasögur koma reglulega út og að þær eru virkilega góð afþreying. Þær bækur sem skilja mest eftir sig þykir honum vera bækur um lífshlaup fólks. Bækur á borð við Hellaþjóðina og Mammútaþjóðina eftir Jean M. Auel finnst honum vera gott dæmi um slíkar bækur.

Sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á Arnór er Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones en sú bók talaði ótrúlega til hans. Bókin er skáldævisaga sem fjallar um eina fegurstu kirkju heimsins sem byggð var af samfélaginu af litlum efnum.

Að mati Arnórs hefðu allir gott af því að lesa Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson. Arnór bjó lengi fyrir norðan þar sem sögusvið bókarinnar er og átti hann því gott með að tengja við bókina.

Arnóri finnst best að lesa í stólnum í stofunni heima, þar sem hann getur horft yfir Keflavík. Þar eru hans gæðastundir með kaffibolla og góða bók.

Þær bækur sem Arnóri finnst að lesendur ættu ekki að láta framhjá sér fara eru bækur Dan Brown, Kirkja hafsins og bækur Jean M. Auel.

Eftir annasamt vor hlakkar Arnóri til að fara í sumarfrí og ná upp orku. Hann er þó aldrei lengi aðgerðarlaus því í sumar ætlar hann m.a. að stúdera Gloriu Vivaldis og skrifa Blik í auga. ,,Og klappa konunni“ bætir hann við kankvís áður en hann kveður og klæðir sig í orgelskóna.

 

Bókasafn Reykjanesbæjar er opið alla virka daga frá klukkan 09-18 og á laugardögum frá klukkan 11-17. Á heimasíðu safnsins http:sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn er hægt að mæla með Lesanda vikunnar.