Kynningar á sumarlestri

Anna María, deildarstjóri barna- og unglingastarfs, og Anna Margrét, verkefnastjóri, eru þessa dagana á faraldsfæti. Þær heimsækja nú alla grunnskóla Reykjanesbæjar fram til loka maí og kynna sumarlestur fyrir öllum börnum í 1.-5.bekk.

Sumarlestur er gífurlega mikilvægur til að viðhalda og auka lestrarfærni barna. Börn og foreldrar þrá þó eflaust tilbreytingu frá rútínu hversdagsins í sumarfríinu. Þá er upplagt að breyta til og lesa t.d. um það sem vekur áhuga barnanna, tómstundirnar, brandara, staðina sem á að ferðast til o.s.frv. 

Í Bókasafni Reykjanesbæjar verður lestrarbingó í allt sumar og vinningshafar verða dregnir út annan hvern föstudag fram til loka ágústmánaðar.

Öll börn sem þær stöllur heimsækja fá blað með sér heim, sem í senn er lestrarbingóspjald og skráningarblað í sumarlestur. Börn í 6.-10.bekk fá blöðin með einkunnum í lok skólaárs eða send heim í tölvupósti frá umsjónarkennurum. Skráningarblöð má einnig nálgast í afgreiðslu safnsins sem og fleiri bingóspjöld.

 Mikilvægt er að skila skráningarblaðinu í Bókasafn Reykjanesbæjar. Allir sem skila komast í pott og Lestrarhestrar verða dregnir út tvisvar sinnum í mánuði í allt sumar og fá lestrarverðlaun. Þegar fyrsta bingóspjaldinu hefur verið skilað er hægt að nálgast fleiri í safninu.


Í sumar verða sérstakir óvissubókapakkar í boði, en það er upplagt fyrir þá sem vita ekkert hvað þeir eiga að lesa eða vilja fá ferskar hugmyndir. Pakkinn er opnaður og þá koma í ljós bækur sem koma skemmtilega á óvart.


Öll börn fá einnig bókaskrá en henni skila börnin til kennara sinna þegar skólinn byrjar aftur í haust.

 

Hægt er prenta út skráningarblaðið og bókaskránna. Ýtið á hlekkina hér fyrir neðan.

 

Skráningareyðublað

Bókaskrá