Húllað á uppskeruhátíð Sumarlestursins

Föstudaginn 14. september var Sumarlestrinum formlega lokið með uppskeruhátíð í bókasafninu þar sem boðið var upp á sirkussmiðju með húllahringjum og kínverskum snúningsdiskum. Húlladúllan hélt sýningu og fengu öll börn kennslu í húlli og að prófa snúningsdiskana sem vakti mikla lukku.

Bókasafn Reykjanesbæjar stendur fyrir Sumarlestri barna á leik- og grunnskólaaldri yfir sumarmánuðina en það er átak sem miðar að því að hvetja börn og foreldra til lesturs yfir sumartímann.

Alls 300 börn tóku þátt í Sumarlestrinum í ár og var 420 þátttökumiðum skilað inn sem er 30% aukning frá því í fyrra. Þátttökumiðarnir eru í formi bingóspjalda þar sem börn eru hvött til þess að lesa í 15 mínútur á dag í mismunandi aðstæðum, t.d. í háum hælum, í lautarferð, rappandi eða hlæjandi. Þetta er ein af mörgum leiðum sem Bókasafnið býður upp á til þess að gera lestur skemmtilegan og aðlaðandi yfir sumartímann þegar skólarnir eru í fríi. Annað sem boðið var upp á í sumar voru óvissupakkar en þá geta börn og unglingar fengið að láni þrjár mismunandi bækur pakkaðar inn í gjafapappír. Það leiddi til þess að lesendur fengu tækifæri til að lesa bækur sem þau mögulega hefðu ekki annars gert. Óvissupakkarnir slógu rækilega í gegn og í kjölfarið var boðið upp á óvissupakka fyrir eldri kynslóðina líka.

Á tveggja vikna fresti í allt sumar var heppinn lesandi dreginn út og fékk viðkomandi verðlaun frá bókasafninu. Alls voru þetta því sjö krakkar sem fengu bók og fótbolta að gjöf en ákveðið var að hafa HM þema þetta sumarið vegna þátttöku Íslands á HM í fótbolta.

Húlladúllan kennir á kínverska snúningsdiska  Húllalistir á uppskeruhátíð sumarlesturs