Hrollvekjusaga á uppskeruhátíð
Þriðjudaginn 13. september var uppskeruhátíð sumarlesturs í Bókasafni Reykjanesbæjar.
Sumarlesturinn gekk vonum framar og ríflega 200 börn tóku þátt. Börnin sem tóku þátt stóðu sig gríðarlega vel en útlán í barnadeild jukust til dæmis um 40% í júnímánuði miðað við júní í fyrra. Annan hvern föstudag var dregið í Lestrarbingói safnsins og alls fengu alls sex börn bókagjöf frá safninu.
Ævar vísindamaður kom í heimsókn á uppskeruhátíðina og las úr væntanlegri bók sinni Þín eigin hrollvekja. Bókin er eins upp byggð og bækurnar Þín eigin Þjóðsaga og Þín eigin Goðsaga, þar sem lesandinn getur sjálfur valið hvernig bókin endar.
Börnin voru að vonum mjög ánægð með heimsóknina, spurðu mikið og deildu draugalegum sögum með vísindamanninum. Rúmlega 60 börn komu og hlýddu á Ævar og fengu óvæntan glaðning frá starfsfólki safnsins þegar lestrinum var lokið.
Hér má sjá áhugasöm börn rétta upp hendur
Börnin fylgdust með af athygli
Þessir drengir brugðu á leik á meðan beðið var eftir vísindamanninum