Heimilið undirlagt af Tinna - rannsóknum í rúmt hálft ár

Miðvikudagskvöldið 18. apríl klukkan 20.00 kemur Gísli Marteinn Baldursson og fjallar um Tinna bækurnar í Bókasafni Reykjanesbæjar.

 

Gísli Marteinn var mikill aðdáandi Tinna bókanna á sínum yngri árum og las bækurnar sem hann átti sem barn upp til agna. Útvarpsþáttasería um Tinna bækurnar undir stjórn Gísla Marteins hefur nú verið flutt á Rás 1 og notið mikilla vinsælda.

,,Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Tinna bókanna og hef síðust ár verið að grúska í bókum sem hafa komið út um höfundinn Hergé og þetta merkilega sköpunarverk hans. Þannig að ég lagði bara til við dagskrárstjóra Rásar 1 að ég tæki sumarfríið mitt í fyrra í að gera þessa þætti, og það varð úr. Verkefnið vatt að vísu mikið upp á sig, þannig að þættirnir urðu fleiri og viðameiri en stefnt var að.

Aðdáun Gísla Marteins hefur ekkert minnkað á fullorðinsárum og við undirbúning þáttanna þótti honum skemmtilegast að fara í gegnum bækurnar sem hann átti ekki en undirbúningurinn krafðist gífurlegrar rannsóknarvinnu.

,,Ég keypti mér allar þær bækur sem eru til um Hergé og Tinna, sem eru all nokkrar. Það liggur gríðarlega mikil vinna á bakvið svona þætti. Ég eyddi meiri tíma í rannsóknir og skrif á þessu efni en til dæmis í meistararitgerðina mína í Edinborgarháskóla!“

Aðspurður um það sem kom honum mest á óvart við gerð þáttanna er Gísli ekki lengi til svars:

,,Hversu mikil áhrif heimsmálin höfðu á skrif Hergé, hversu pólitískar bækurnar eru og hvað Hergé hefur verið eftirgefanlegur gagnvart ráðandi öflum.“

Það sem Gísli Marteinn kemur til með að fjalla um í Bókasafni Reykjanesbæjar miðvikudagskvöldið 18. apríl eru einmitt nokkur þemu og eitt þeirra er Tinni og dularfullu stjórnmálaskoðanirnar.

,,Ég ætla að stikla á stóru í því efni sem ég var að fjalla um í þáttunum mínum og reyna að fara skrefi lengra en bara að kynna Tinna fyrir hlustendum. Mig langar að ræða um þau þemu sem ég tók fyrir í þáttunum, sem var 'Tinni og dularfullu stjórnmálaskoðanirnar', 'Tinni og leyndardómar kynjahlutverkanna' og 'Tinni í fylgsnum fordómanna'. Undir öllum þessum fyrirsögnum eru svo dæmi og sögur sem ég vona að sé áhugavert að heyra.“

Uppáhalds persóna Gísla úr Tinna bókunum er Tinni sjálfur.

,,Tinni er auðvitað með afbrigðum dyggðug persóna. Hann hefur í rauninni enga galla, er alltaf hjálpsamur og vill aðstoða þá sem minna mega sín. Hann fer ekki í manngreinarálit. Hann er í raun táknmynd góða skátans - og ég held að það sé gott að vera alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum.“

Gísli Marteinn býst ekki við því að miðla meira efni um Tinna bækurnar en heimili hans var undirlagt af Tinna - rannsóknum í rúmt hálft ár. Núna hefur hann sett bækurnar upp í hillu og einbeitir sér að sínu aðalstarfi; gerð sjónvarpsþáttanna Vikan með Gísla Marteini sem sýndir eru á föstudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu.

 

Að lokum er Gísli spurður hvort hann myndi kalla sjálfan sig sérfræðing í Tinna bókunum.

,,Ég myndi ekkert titla mig þannig í símaskránni, en ég veit orðið ansi mikið um þennan ágæta belgíska blaðamann“ segir Gísli kíminn.

 

Aðgangur er ókeypis á Tinna kvöldið 18. apríl klukkan 20.00 og allir hjartanlega velkomnir í Bókasafn Reykjanesbæjar.