Handavinna og minimalískur lífsstíll
29.04.2016
Handavinna og minimalískur lífsstíll í Bókasafni Reykjanesbæjar
Miðvikudaginn 27. apríl komu góðir gestir í Bókasafn Reykjanesbæjar; hönnuðurinn Magdalena Sirrý og Áslaug Guðrúnardóttir, höfundur bókarinnar Minimalískur lífsstíll.
Klukkan 16.00 á miðvikudeginum kom Magdalena Sirrý og spjallaði um hönnun og handavinnu við gesti safnsins. Síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittist hópur í safninu í Skapandi samverustund þar sem skipst er á góðum hugmyndum og hvatningu. Magdalena Sirrý kom að þessu sinni og sýndi einnig verk sem hún er með í bígerð og önnur fullkláruð, eins og sjöl, peysur, húfur og margt fleira. Hún hefur mikið notað rússneskt hekl í verkum sínum og fengu gestir að skoða og handfjatla þau.
Magdalena Sirrý spjallar við iðna gesti
Áslaug Guðrúnardóttir hélt sína kynningu um kvöldið en hún fjallaði um minimalískan lífsstíl við gesti og tilurð bókarinnar sem kom út fyrir síðustu jól. Áslaug sagði einnig skemmtilegar og persónulegar sögur um leiðina að þessum lífsstíl og voru gestir ófeimnir við að spyrja um góð ráð.
Áslaug hitti fyrrum samstarfsmann og áhugamann um minimalískan lífsstíl, Inga Þór Ingibergsson.