Gunnar Helgason skapandi á Suðurnesjum

 Gunnar Helgason rithöfundur verður með smiðjur í skapandi skrifum fyrir börn í 3. - 6. bekk á öllum Suðurnesjum. Smiðjurnar fara fram dagana 5. - 13. október í Grindavík, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum.

Gunni, eins og hann er oftast kallaður, er mjög spenntur að byrja og vildi ólmur svara nokkrum spurningum um smiðjurnar:

 


Hvað gera krakkarnir á námskeiðinu?

Við byrjum á því að fara yfir hvernig er gott að skrifa, hvaða trix er hægt að nota og hvernig góð saga er í laginu. Pælum í upphafi, miðju, enda og því öllu.

Gunnar skrifar
 Hér sést Gunnar við skriftir


Hefur þú kennt svona námskeið áður?

Já, ég hef kennt svona á bókasöfnunum í Reykjavík. Það hefur verið mjög gaman en þetta verður ennþá skemmtilegra því við ætlum að senda sögurnar í Sögur - samkeppnina.

 
Er auðvelt eða erfitt að koma hugmynd úr höfðinu og gera hana að stuttmynd, lagatexta, ljóði, leikriti eða smásögu?

Það fer nú alveg eftir því hvern þú spyrð. Mér þætti það til dæmis erfitt ef ég ætti að gera ljóð eða lagatexta. En sumum finnst það lang auðveldast. Þannig að þetta er mjög erfið spurning, sko. Og kannski bara best að svara henni í ljóði: 

 

Spurningum sem þessum er mjög erfitt að svara

Svörin við þeim eru stutt og löng

Sumir segja tja af því bara

en aðrir rétta þér löngutöng. 


Þarna sjáið þið. Ég er glataður textasmiður eða ljóðskáld.

 Mamma klikk

Gunnar fer með eitt aðalhlutverka í leikritinu Mamma klikk! sem er eftir samnefndri bók hans

 

Hvað finnst þér skemmtilegast að semja?

Mér finnst skemmtilegast að semja sögur sem geta orðið að bók og kannski leikriti líka og jafnvel bíómynd. Þannig að ég hef verið mjög heppinn því Mamma klikk er orðin að leikriti og Víti í vestmannaeyjum varð að bíómynd. Og Draumaþjófurinn er næstur á svið!

 
Ertu spenntur að hitta krakkana á Suðurnesjum? 

Leyf mér að hugsa...JÁ! Það eru langskemmtilegustu krakkarnir á Suðurnesjum!

   ……...sem ég skil ekki alveg því foreldrar þeirra eru nú ekkert spes. DJÓK!!!

 

Víti í Vestmannaeyjum
Hér er Gunnar við tökur á kvikmyndinni Víti í Vestmannaeyjum sem er eftir samnefndri bók hans.


Markmiðið er að hvetja börn á svæðinu til að skapa sinn heim og senda inn ljóð, lagatexta, leikrit, stuttmyndahandrit eða smásögu til krakkaRÚV og taka þátt í Sögur - verðlaunahátíð barnanna. Þar verður verk í hverjum flokki valið sem verður að veruleika! 

Sögur eru stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Markmið verkefnisins er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og í leiðinni upphefja barnamenningu á Íslandi og sýna börnum að hverju hugmyndir þeirra geta orðið. 

Um áramótin verður valið úr innsendu efni. KrakkaRÚV velur handrit og framleiðir stuttmyndir, Menntamálastofnun velur smásögur og gefur þær út í rafbókinni Risa-Stórar-Smásögur, fagfólk í tónlist velur lög og texta til að vinna áfram með höfundum, Borgarleikhúsið velur 2 verk til að setja á svið sem útskriftarverk Leiklistarskóla Borgarleikhússins og að þessu sinni bætast við ein verðlaun. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verðlaunar Ungmennahandrit ársins 2021 í tilefni af 50 ára heimkomuafmæli handritanna okkar frá Danmörku. 

Dagskrá:
Grindavík: 6., 8. og 13. október frá klukkan 16 - 17 í Grunnskóla Grindavíkur.
Reykjanesbær: 5., 7. og 12. október frá klukkan 16 - 17 í DUUS safnahúsum.
Suðurnesjabær: 5., 7. og 12. október frá klukkan 14 - 15 í Sandgerðisskóla.
Vogar: 6., 8. og 13. október frá klukkan 14 - 15 í Stóru - Vogaskóla.


Skráning fyrir Reykjanesbæ: HÉR

 

Viðburðurinn Sögur - skapandi skrif eru samstarfsverkefni almennings bókasafna Suðurnesja sem styrkt eru af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.