Frábært Erlingskvöld afstaðið
Í gærkvöldi, fimmtudagskvöldið 31. mars, var glæsileg dagskrá í Bókasafni Reykjanesbæjar í tilefni Erlingskvölds.
Um 70 gestir komu í safnið og gæddu sér á kaffi, kleinum, góðri tónlist og frábærum bókum.
Arnór, Dagný og Elmar komu og fluttu 4 lög úr tónleikaröðinni Söngvaskáld á Suðurnesjum. Flutningurinn var glæsilegur og gestir höfðu gaman af tali og tónum um söngvaskáld Suðurnesja. Flutt voru lög eftir Sigvalda Kaldalóns, Vilhjálm Hólmar Vilhjálmsson og Jóhann Helgason.
Höfundar bókarinnar Hugarfrelsi, Hrafnhildur og Unnur Arna, kynntu bókina og kenndu gestum m.a. öndunaræfingar. Allir voru viljugir til að taka þátt og þær enduðu á stuttri hugleiðslusögu.
Héðinn Unnsteinsson steig síðastur á stokk og hreif gesti með sér með frábærum upplestri og kómískri frásögn af lífsreynslu sinni. Það var mikið hlegið og það er von okkar hér í Bókasafni Reykjanesbæjar að gestir hafi farið heim með hlýtt í hjartanu og leyfi sér að fíflast aðeins og taka lífinu ekki of alvarlega. Við komumst hvort eða er ekki lifandi frá því!
Héðinn les fyrir gesti
Unnur Arna og Hrafnhildur kynna bókina Hugarfrelsi fyrir gestum
Brugðið á leik