Fjörug vika að baki

Fjörug vika að baki

 

Um 250 börn  heimsóttu Bókasafn Reykjanesbæjar síðastliðna viku á skipulagða viðburði en er það fjörugra en venjulega.

 

 

Uppskeruhátíð sumarlestrar var á þriðjudag en rúmlega 300 sumarleikja-blöðum var skilað inn til safnsins. Á uppskeruhátíðinni kom Halla Karen til okkar og las nokkrar vel valdar draugasögur í myrkvuðu safninu. Á neðri hæð safnsins var búið að koma fyrir litlum draugamyndum sem lýsa í myrkri og fengu öll börn lítið vasaljós að gjöf frá safninu. Vopnuð vasaljósum og heilum helling af hugrekki var svo haldið á draugaveiðar á neðri hæð safnsins sem var alveg myrkvuð. Fjörið var mikið og það gleður okkur að tilkynna að það náðist að veiða alla draugana úr safninu.

 

 uppskeruhatid

Á föstudeginum var fyrsta Bókabíó Bókasafnsins en verður það mánaðarlegur viðburður í vetur. Síðasta föstudag hvers mánaðar verður sýnd kvikmynd í safninu 

bokabio

sem gerð er eftir bók. Að þessu sinni voru allir þátttakendur hvattir til að lesa ævintýri Bergrisans Fróma Góða (BFG) eftir Roald Dahl. Myndin var sýnd við góðar undirtektir og var verkum Roalds Dahl stillt upp og gátu áhugasamir tekið með sér fleiri ævintýri heim.

 

Notaleg sögustund með Höllu Karen var á laugardeginum klukkan 11.30 en þetta var fyrsta Notalega sögustundin eftir sumarfrí. Að þessu sinni las Halla Karen um hana Rauðhettu og söng nokkur vel valin lög með. Síðasta laugardag hvers mánaðar verður Notaleg sögustund með Höllu Karen í Bókasafni Reykjanesbæjar í vetur.

Allar upplýsingar um komandi viðburði má lesa um hér.