„Femínískur boðskapur bókarinnar Karitas án titils talaði mjög sterkt til mín.“
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Sólmundur Friðriksson kennari og bókavörður í Sandgerðisskóla. Sólmundur var algjör bókaormur sem krakki þar sem móðir hans hvatti hann til lesturs og gaukaði að honum bókum. Lesturinn hefur verið misstór hluti af lífi Sólmundar síðan þá en síðustu ár hefur hann gefið lestri meiri tíma þar sem starf hans snýst meira og minna um bækur.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er yfirleitt með nokkrar bækur í gangi í einu, alltaf með ljóðabók í náttborðsskúffunni og hef undanfarið verið að glugga svolítið í fræðibókum í sálfræði- og uppeldisgeiranum. Þessa stundina er ég hins vegar að lesa bókina Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttir, sem er mjög áhugaverð og vel skrifuð.
Hver er uppáhalds bókin?
Ég man ekki eftir neinni sérstakri bók sem gæti staðið ein á toppnum en ef ég mætti tilnefna nokkrar þá koma þessar fyrstar upp í kollinn: Salka Valka (Laxness), Að haustnóttum (Hamsun) og Þrúgur reiðinnar (Steinbeck).
Hver er uppáhalds höfundurinn?
Svo sem enginn sérstakur. Það hafa svo margir höfundar hrifið mig í gegnum tíðina en þessa stundina er það tvímælalaust Jón Kalman Stefánsson. Hann skrifar svo magnaðan texta að það er töfrum líkast. Svo finnur maður eitthvað ódauðlegt nánast á hverri síðu, ég hef t.d. aldrei fundið eins mikla þörf fyrir að taka niður glósur eins og við lesturinn á Himnaríki og helvíti.
Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Mér finnst gaman að lesa flestar tegundir bóka en skáldsögur með sögulegri skírskotun hrífa mig mest. Heillaðist snemma af suður-ameríska töfraraunsæinu hjá Gabriel Garcia Marcia Márquez og Isabel Allende. Svo hef ég frá unga aldri dregist að umfjöllunarefni þar sem manneskjan tekst á við ofurefli í lífinu. Af mörgu er að taka á því sviðinu enda slíkt mjög vinsælt umfjöllunarefni í skáldsögum.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Ég held að það sé illmögulegt að segja til um það sjálfur því bækur hafa áhrif á mann á svo marga vegu og mest af því ómeðvitað. En sú bók sem ég myndi segja að hafi vakið mig mest til umhugsunar í seinni tíð er Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Sem faðir þriggja dætra talaði hreini og beini feminíski boðskapur bókarinnir mjög sterkt til mín.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Söguna af bláa hnettinum eftir Andra Snæ. Bók sem felur í sér lífsnauðsynlegan boðskap sem á erindi til allra jarðarbúa.
Hvar finnst þér best að lesa?
Í stofunni heima. Þar á ég minn stað við stóran glugga sem vísar út í garðinn. Svo fullkomnar það stundina að hafa rjúkandi kaffibolla við hendina.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Hús andanna (Allende), Híbýli vindanna (Guðmundur Böðvarsson), Salka Valka (Laxness), Sumarljós og svo kemur nóttin (Kalman).
Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Þar sem ég ímynda mér að það yrði frekar leiðigjarnt að lesa alltaf sömu bókina þá myndi ég taka með mér þykka stílabók og nota tímann til að skrifa sjálfur. Senda síðan sem flöskuskeyti í þeirri von að bókina myndi reka á fjörur einhvers velviljaðs útgefanda.
- Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.