Erlingskvöld 2018

Erlingskvöld var haldið í Bókasafni Reykjanesbæjar fimmtudagskvöldið 22. mars og var styrkt af  Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

 

Erlingskvöld er haldið til heiðurs Erlingi Jónssyni sem kosinn var bæjarlistamaður Keflavíkur árið 1991. Árið 2002 var ákveðið að Bókasafnið skyldi standa fyrir árlegu Erlingskvöldi á eða nálægt fæðingardegi listamannsins, sem er 30. mars. Nú hittir svo á að annar í páskum er þann dag og því var þessi dagssetning ákveðin.

 

Dagskráin var sem fyrr helguð menningu og kom magnað listafólk fram.

 Feðginin Guðmundur Hreinsson og Jana María Guðmundsdóttir fluttu fjögur lög sem samin voru af Guðmundi. Feðginin hafa spilað saman frá því Jana var unglingur og héldu þau m.a. afmælistónleika í Hljómahöll í haust ásamt hljómsveit þar sem þau fluttu allt frumsamið efni eftir Guðmund.

 jana

Feðginin Jana og Guðmundur

 

Á eftir feðginunum tóku  við rithöfundarnir og nöfnurnar Kristín Helga Gunnarsdóttir og Kristín Steinsdóttir og lásu úr nýjustu bókum sínum.

kristinkristin

Nöfnurnar svara spurningum gesta

 

Kristín Helga Gunnarsdóttir las úr nýjustu bók sinni Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels en Kristín Helga hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bókina og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. 

Kristín Steinsdóttir las úr nýjustu bók sinni Ekki vera sár sem kom út fyrir jólin 2017. Kristín hefur skrifað á fjórða tug bóka og hafa skáldsögur hennar hlotið mikið lof hér heima og erlendis. 

Að upplestri loknum spurðu gestir út í bækurnar og vinnuna á bakvið þær. spjall

Kristín Steinsdóttir spjallar við gesti í lok kvöldsins

 

Tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Bubbi Morthens ætlaði að lesa úr ljóðabókunum sínum; Öskraðu gat á myrkrið og Hreistur. Hann var svo óheppinn að næla sér í flensu og gat því ekki komið.  Hann kemur vonandi í heimsókn á vormánuðum og les úr ljóðabókum sínum. Það verður kynnt betur síðar.