„Endurminningar Stefan Zweig sá texti sem hefur kennt mér hvað mest að vera ánægður með sjálfsögðu hlutina.“
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Marinó Örn Ólafsson, hagfræðinemi við Háskóla Íslands. Marinó les sér til skemmtunar aðallega á sumrin og um jólin, annars eiga námsbækurnar hug hans allan yfir vetrartímann.
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Akkúrat núna hef ég verið að grípa í tvær bækur. Annars vegar Nudge eftir Richard Thaler og Cass Sunstein sem fjallar um atferlishagfræði og hvernig ýmsir hlutir og ferli eru hönnuð (eða ekki hönnuð) til að fólk taki ómeðvitað betri ákvarðanir en það hefði gert. Hins vegar er ég að lesa sjálfsævisögu Bernie Sanders; Our Revolution, sem er þó aðallega um kosningabaráttuna 2016 og hans upplifun af henni.
Hver er uppáhalds bókin?
Veröld sem var eftir Stefan Zweig.
Hver er uppáhalds höfundurinn?
Ég á mér ekki beint uppáhalds rithöfund, en ætli ég hafi ekki mest lesið eftir Halldór Laxness og Andra Snæ síðustu ár svo þeir hljóta að komast ofarlega á þann lista.
Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Það getur verið svo mismunandi að mest lýsandi svarið er líklega það að ég les aldrei glæpasögur, allt annað á séns á því að rata á náttborðið.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Veröld sem var. Það er þess vegna sem hún er í mestu uppáhaldi hjá mér.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Ég get ekki sleppt því að segja enn einu sinni Veröld sem var. Að lesa endurminningar Zweig frá þeim tíma sem hann kallar gullöld öryggisins til seinni heimsstyrjaldar er líklegast sá texti sem hvað mest hefur kennt mér að vera ánægður með „sjálfsögðu“ hlutina og njóta þess að búa í frjálslyndu samfélagi. Svo skemmir ekki fyrir að íslenska þýðingin er ofsalega góð.
Hvar finnst þér best að lesa?
Heima við sófaborðið með kaffibolla.
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Góði dátinn Svejk, Lovestar, Vefarinn mikli frá Kasmír, Um vináttuna og Vopnin kvödd.
Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Heimsljós. Ef ég hefði ekkert annað að gera hlyti mér loksins að takast að klára alla söguna!
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.