Einstakur viðburður í Bókasafni Reykjanesbæjar
Fimmtudagskvöldið 3. maí var Ljóðakvöld í Bókasafni Reykjanesbæjar. Listamennirnir Bubbi Morthens og Bjartmar Guðlaugsson komu og lásu ljóð úr bókum sínum en Bubbi hefur gefið út tvær ljóðabækur, Hreistur og Öskraðu gat á myrkrið. Bók Bjartmars - Þannig týnist tíminn geymir mikið af textum og ljóðum eftir Bjartmar sem hann las fyrir gesti. Bubbi las úr bókinni Hreistur sem er nýrri ljóðabók hans.
Bubbi og Bjartmar eru þekktastir sem tónlistarmenn og koma oftast fram sem slíkir. Þeir hafa ekki gefið út lag saman og var því viðburðurinn einstakur að því leiti að þeir voru saman komnir og í öðrum hlutverkum en vanalega, í hlutverkum rithöfunda.
Lestur þeirra lagðist vel í gesti og að honum loknum svöruðu þeir spurningum gesta og upp spunnust líflegar og áhugaverðar umræður um listina, ljóðin, minningarnar og vinnuna við að semja og skapa.
Í lok kvöldsins var óskað eftir afmælissöng fyrir gest úr salnum og Bubbi var ekki lengi að bregðast við því og söng sálminn Down To The River To Pray sem margir þekkja úr kvikmyndinni O Brother, Where Art Thou? við mikinn fögnuð afmælisbarnsins og annara viðstaddra.