Bókasafnið tekur þátt í Plastlausum september

Bókasafn Reykjanesbæjar tekur þátt í Plastlausum september sem er árverkniátak sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu.

Bókasafnið mun:

  • Ekki bjóða upp á plastpoka undir bækur.
  • Setja upp fyrstu Pokastöðina í Reykjanesbæ þar sem hægt er að fá lánaða taupoka (og skila þeim aftur á næstu Pokastöð)
  • Bjóða upp á saumastund síðasta þriðjudag hvers mánaðar kl. 16-18 þar sem öllum er velkomið að mæta og sauma poka úr alls konar efni.
  • Taka á móti efni í poka sem geta verið gamlir bolir, rúmföt o.fl. Verður að vera hreint. 
  • Nokkrar saumavélar verða á staðnum en einnig er saumafólk hvatt til að mæta með eigin vélar. Auk þess er hægt að fá efni hjá okkur og sauma heima hjá sér og mæta svo með pokana til okkar.

Við hvetjum aðrar stofnanir í Reykjanesbæ til þess að taka þátt í samfélagsverkefninu Pokastöðvar á Íslandi m.a. með því að hýsa  Pokastöð eða styrkja málefnið á annan hátt.  Margir eiga það til að gleyma margnota pokunum sínum heima, t.d. þegar verslað er í matinn eða bækur leigðar á bókasafninu þá er hægt að taka poka úr Pokastöðinni og skila honum á næstu Pokastöð og minnka þ.a.l. notkun plastpoka.

Bókasafnið mun standa fyrir saumaviðburði í september sem verður auglýstur síðar.

Áhugasamir skrá sig til leiks með því að ganga í hóp á Facebook sem heitir Pokastöðin í Reykjanesbæ  

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Pokastöðvarinnar.

Eins hvetjum við alla að taka þátt í Plastlausum september, hægt er að skrá sig til leiks á heimasíðu átaksins.