Bókasafn hvar sem er og hvenær sem er
Rafbókasafnið eflist
Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 20. desember sl. birtist frétt um Rafbókasafnið þar sem rætt var við Þóru Gylfadóttur verkefnisstjóra hjá Landskerfi Bókasafna.
Að sögn Þóru eru 62 bókasöfn á landinu sem bjóða lánþegum sínum upp á Rafbókasafnið þar sem hægt er að fá að láni úrval rafbóka og hljóðbóka. Rafbókasafnið opnaði fyrst í lok janúar á þessu ári og í byrjun júní varð það aðgengilegt fyrir lánþega Bókasafns Reykjanesbæjar.
Úrvalið er enn sem komið er mest á ensku en rafbókum á íslensku hefur eitthvað fjölgað og mun vonandi fjölga enn meira. Hljóðbækurnar verða æ vinsælli en vinsældir þeirra aukast jafnt og þétt. Fjölbreyttur safnkostur er í Rafbókasafninu en þar má finna ævisögur, skáldsögur, fræðirit, rit almenns efnis, nýtt efni og klassískt. Vinsælasta bókin í Rafbókasafninu er eftir Margaret Atwood, The Handmaid's Tale, en nýverið kom út samnefnd sjónvarpsþáttasería sem hefur notið mikilla vinsælda.
Í Rafbókasafninu fá lánþegar engar sektir en eftir ákveðinn tíma fara bækurnar út af raftæki viðkomandi. Hér er hægt að kynna sér betur Rafbókasafnið.
Hér má lesa greinina sem birtist á vef Morgunblaðsins.