Berst um á hæl og hnakka til að ná í nýjustu bækur Ragnars Jónassonar

Sigurlaug Gunnarsdóttir byrjaði ekki að lesa af alvöru fyrr en hún hætti að vinna og hefur sannarlega nýtt þann tíma vel. Hún er fastagestur í Bókasafni Reykjanesbæjar og fer til dæmis aldrei í bústaðinn án þess að ,,nesta sig upp“ í safninu.

 

Sigurlaug var að ljúka við bókina Þrjár mínútur eftir sænsku höfundana Roslund og Hellström. Sigurlaug les mikið af glæpasögum en þykir stundum nóg um hryllinginn sem má finna í nokkrum þeirra. Hún situr auðvitað ekki auðum höndum og byrjaði nýverið á bókinni Brestir sem er nýjasta bók Fredriks Backmanns sem einnig skrifaði bókina Maður sem heitir Ove, en samnefnt leikrit var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu haustið 2016.

Aðspurð um sína eftirlætis bók hugsar Sigurlaug sig vandlega um og segir svo; ,,Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren er nú bara bók allra tíma! Ég grenjaði úr mér augun þegar ég las hana fyrst sem barn. Pollýanna eftir Eleanor H. Porter er líka dásamleg bók en hún kennir okkur að vera bjartsýn, sem er svo mikilvægt.“

Það stendur ekki á svörum þegar Sigurlaug er spurð um sinn eftirlætishöfun; ,,Ragnar Jónasson! Ég berst um á hæl og hnakka til að ná nýjustu bókunum hans.“

Hefur dálæti á bókum sem lýsa samfélögum ólíkra menningarheima og tíðaranda

Sigurlaug les mest af þýddum norrænum glæpasögum en segir þær ekki hafa djúpstæð áhrif á sig, þær skilji fæstar eitthvað eftir sig. Sigurlaug hefur mikið dálæti á bókum sem lýsa samfélögum ólíkra menningarheima og tíðaranda. Sú bók sem hefur haft hve mest áhrif á Sigurlaugu er einmitt bók sem gerist á Spáni á 11. öld. ,,Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones er hreint mögnuð bók. Ég man nú ekki alltaf allt sem ég les, en þessa bók man ég nánast frá blaðsíðu til blaðsíðu. Hún er hreint stórfengleg!“ Einnig nefnir Sigurlaug bókina Hús andanna eftir síleanska rithöfundinn Isabel Allende.

Sigurlaug minnist ekki einhverrar ákveðinnar bókar sem allir ættu að lesa; ,,Það eru til svo margar bækur sem gera okkur að betri manni. Allar mannbætandi bækur eru skyldulesning en við erum auðvitað öll með ólík sjónarmið og því er það afstætt hvað gerir okkur betri.“

Sigurlaug á sér sérstakan lestrarstað. Hún les í sérstöku herbergi, í sérstökum sófa við sérstakan lampa. Þar les hún miklu frekar en upp í rúmi fyrir svefninn. ,,Þetta er minn afslöppunarstaður“ bætir Sigurlaug við. 

Sigurlaug

Sigurlaug í lestrarsófanum

Sigurlaug mælir eindregið með bókinni Kirkja hafsins fyrir áhugasama lesendur. Einnig mælir hún með öllum okkar íslensku rithöfundum ,,sem við eigum að kaupa og lesa“ bætir hún við.

Ef að Sigurlaug myndi lenda í þeirri lífsreynslu að dvelja á eyðieyju myndi hún að sjálfsögðu koma við í Bókasafni Reykjanesbæjar og taka nýjustu bókina með sér. ,,Það verður líka að koma fram að ég er svo ánægð með þjónustuna þar, ég hef aldrei vitað annað eins“ segir Sigurlaug að lokum.