,,Bækur fyrir mér eru eins og sjónvarpsefni“

Feðgarnir Haukur og Sveinn Magnús
Feðgarnir Haukur og Sveinn Magnús

Haukur Hilmarsson ráðgjafi í Samvinnu, starfsendurhæfingu MSS, er Lesandi vikunnar að þessu sinni. Hann er þriggja barna faðir og honum til halds og trausts í bókaspjalli var Sveinn Magnús Hauksson 5 ára.  

Haukur er alltaf með bunka af bókum á náttborðinu og svissar á milli bóka. Núna er hann að lesa bók sem hann fékk í jólagjöf sem heitir Why we can‘t afford the rich eftir Andrew Sayer sem er prófessor í félagsvísindum. Haukur hallast mest að lestri fræðibóka og var að ljúka við eina sem heitir Buyology eftir Martin Lindström sem fjallar um kauphegðun fólks. Hann kemur einnig reglulega í Bókasafnið og þá eru það bækur á borð Kaptein Ofurbrók sem hann síðan les með sonum sínum.

Eftirlætis bækur Hauks eru bækurnar um Viggó viðutan. ,,Ég tengi mjög vel við Viggó, hann er mjög uppátækjasamur og skemmtilegur en mín núvitund eru svona stuttar og skemmtilegar sögur. Tinni, Fimm fræknu og fleiri eru mitt uppáhald.“ Einnig nefnir Haukur bókina um Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hašek sem eftirlætisbók.

Haukur á ekki eiginlegan uppáhaldshöfund sem hann les allt eftir en hann hefur dálæti á Arnaldi Indriðasyni. ,,Ég er ekki að leggja á minnið hver skrifaði hvaða bók. Bækur fyrir mér eru oft eins og sjónvarpsefni, ég les alls konar.“ Á yngri árum las Haukur mikið spennusögurnar eftir Alistair MacLean sem voru í miklu uppáhaldi.

Haukur les helst fræðibækur og síst skáldsögur. ,,Ef það er til dæmis einhver ný spennusaga að koma út, horfi ég frekar á myndina og les í staðinn góða fræðibók.“

,,Í framhaldsskóla var ég skikkaður til að lesa Íslandsklukkuna og var fyrst reiður og í mótþróa. Svo kemur á daginn að bókin er stórskemmtileg og í kjölfarið fékk ég dálæti á Halldóri Laxnesi. Það sama má segja um The Hobbit eftir J.R.R. Tolkien sem ég var mjög hrifinn af.“

Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle er bók sem Haukur telur að allir hefðu gott af því að lesa. ,,Bókin kallar ekkert á fólk en hún er í raun alveg frábær.“

Haukur kýs að lesa í ró og næði heima. ,,Á kvöldin þegar allir eru komnir upp í rúm. Ég sofna bara ef ég les undir sæng.“

Haukur mælir með nokkrum bókum  og sérstaklega fyrir þá sem eru hrifnir af fræðibókum. Veður, Power of habit, Why we can‘t afford the rich, Buyology, Social intelligence, Viggó viðutan og Tinni. ,,Ég hef alltaf gaman að bókum sem hjálpa mér að gagnrýna umheiminn, þannig að maður hugsi í stað þess að fylgja straumnum endalaust.“

Á eyðieyju tæki Haukur með bókina Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle. ,,Ef maður væri fastur á eyðieyju þyrfti maður augljóslega að vinna með hugann.“

,,Núna erum við að flytja, mála og iðnaðarmannast og verðum í því í sumar. Svo hleyp ég að lágmarki þrisvar sinnum í viku og stefni á að klára lestrar bunkann heima og lesa svo bækur um hlaup.“